Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 10:55:09 (7138)

2000-05-09 10:55:09# 125. lþ. 109.20 fundur 569. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# (undanþágur) frv. 73/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[10:55]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa er afar þarft mál þar sem fastar og ákveðnar er kveðið á um reglur um tilkynningarskyldu smábáta. Eins og hefur komið fram hjá hv. frsm. hafa allar umsagnir verið afar jákvæðar gagnvart þessu frv. og er virkilega ánægjulegt að við Íslendingar skulum skipa okkur í fremstu röð þjóða í öryggi og eftirliti með fólki meðfram ströndum landsins og á hafi úti.

Ég vil þó vekja athygli á kostnaði í kringum þetta. Þarna þarf allstór hópur að ráðast í kaup á tækjum sem mig minnir að gætu kostað um 100 þús. kr. Aftur á móti er gert ráð fyrir því að veittur verði styrkur úr ríkissjóði vegna þessara kaupa. Samkvæmt umsögn fjmrn. er gert ráð fyrir að sá styrkur gæti numið allt að 45 þús. kr. á tæki en þarna er um umtalsverðan kostnað að ræða.

Þarna er líka um að ræða tæki eða búnað sem verið er að skylda í lögum að hafa í skipum og eftir því sem mér skilst er aðeins einn aðili sem flytur þessi tæki inn eða gert ráð fyrir því að þau séu keypt af einum aðila. Það væri ágætt ef hv. formaður samgn. gæti upplýst hvernig kaup á þessum tækjum ganga fyrir sig. Þegar slík tæki eru gerð að skyldu með lögboði skiptir miklu máli að gætt sé allra þeirra reglna og umgjarða sem mögulegt er til þess að þau séu bæði á sem hagkvæmustu verði og einnig líka að þjónustan sé sem öruggust.

Ég bendi á að þessi umgjörð þarf að fylgja með þegar verið er að lögleiða útbúnað sem þennan, að við þurfum ekki að óttast einokun og fákeppni heldur sé hægt að koma eðlilegri samkeppni við en öryggi og þjónusta þarf náttúrlega að vera í fyrirrúmi.