Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:51:26 (7196)

2000-05-09 13:51:26# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það vakti nokkra athygli mína þegar birtist í ágætu blaði, Degi, að þetta væntanlega hjúkrunarheimili yrði miklu flottara og dýrara. Nú er það svo að Hrafnistumenn hafa ekki haft á móti einkaframtakinu sem slíku. En þegar litið er til þess að í mörg ár, allar götur frá 1990, hafa þessi hjúkrunarheimili, Grund, Hrafnista og fleiri verið að reyna að ná samkomulagi við heilbrrn. um daggjöld án þess að nokkur árangur hafi náðst og það einkennilega hefur gerst að ráðuneytið hefur ákveðið einhliða hvað það vill borga fyrir þjónustuna. Ekki hefur náðst umræðugrundvöllur um þennan mikilvæga þátt.

Í annan stað er merkilegt að hlusta á það sem hv. þm. Hjálmar Árnason kom hér inn á og fullyrðir að hér muni verða betri búnaður, betri þjónusta, rýmra húsnæði og betur verði hlúð að þeim öldruðu. Það liggur alveg ljóst fyrir að í þeim rekstri sem við er að etja í dag þar sem heimili sem eru orðin 40--50 ára gömul, börn síns tíma, er miklu dýrara að þjónusta þunga aldraða sjúklinga en í húsnæði sem nú stendur til að tryggja. En samt verður þar miklu meiri og hærri greiðsla en til þeirra heimila sem fyrir eru.

Það er líka annað í þessu sem hér hefur komið fram. Það er talað um að svokallað RAI-mat muni ráða. Það vantar samt enn á að RAI-matið sé í samræmi við væntanlegt hjúkrunarheimili og eins og það er við þau hjúkrunarheimili sem eru þegar starfrækt í dag. RAI-matið er 60% af heildarþjónustunni. Hver á hin þjónustan að vera? Það vantar skilgreiningu frá ráðuneytinu um það mál þannig að það er nokkuð margt óljóst enn þá í þessu þó að við fögnum því auðvitað að við sjáum fram á verulega hærri daggjöld til annarra öldrunarstofnana sem eru þegar fyrir í dag og það er kannski það góða sem fram undan er.