Svör við fyrirspurn

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 21:03:02 (7796)

2000-05-13 21:03:02# 125. lþ. 119.91 fundur 547#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 125. lþ.

[21:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og kunnugt er er það algengt á hinu háa Alþingi að þingmenn beri fram fyrirspurnir sem krefjast ítarlegra svara sem oft er erfitt að veita innan þess frests sem þingsköpin áskilja. T.d. var í dag útbýtt tveimur slíkum svörum þar sem sérstaklega er tekið fram að ekki verði gengið lengra í að vinna svörin innan tilskilins frests en þar kemur fram. Þetta átti við um það svar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gert að umtalsefni bæði á þessum fundi en reyndar einnig fyrr í vor þegar ég hafði ekki aðstöðu til þess að vera til andsvara.

Að gefnu þessu tilefni vil ég taka fram að enda þótt sumar af spurningum hv. þm. í hinni skriflegu fyrirspurn hafi verið óskýrar að okkar dómi og enda þótt launavinnsla í heilbrigðisstofnunum landsins sé ekki miðlæg, eins og kunnugt er, og þar af leiðandi mjög erfitt um vik að draga saman í einn stað allar þær upplýsingar sem ég geri ráð fyrir að fyrirspyrjandi hafi viljað fá fram, þá mun af minni hálfu í fjmrn. verða reynt í sumar að setja sérstakan starfskraft í að að vinna að þáttum sem lúta að þessu máli, m.a. að því að fá nákvæmlega fram samsetningu starfsmanna á þessum stofnunum og þær breytingar sem hafa orðið innan heildarinnar. Jafnframt þær breytingar sem hafa orðið á vinnumagninu en þær geta verið með ýmsum hætti. Í sumum tilfellum er t.d. um það að ræða að ákveðnir hópar manna hafi helgað sig störfum á stofnunum og t.d. hætt að vinna sjálfstætt úti í bæ. Einnig munum við reyna að skoða launaþróunina innan einstakra hópa og hjá hverjum hópi fyrir sig.

Því vænti ég þess að við í ráðuneytinu verðum komin með mun betri upplýsingar um þessi mál í haust sem munu vonandi greiða fyrir þeim kjarasamningum sem fara þá í hönd m.a. við samtök hv. þm. Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, og félögin innan hans samtaka en einnig önnur samtök opinberra starfsmanna. Auðvitað er það rétt hjá honum að það er mjög mikilvægt að upplýsingar um þessi efni liggi fyrir þegar menn ganga til slíkra viðræðna.

Herra forseti. Þetta vildi ég að kæmi fram af minni hálfu.