Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 14:55:40 (37)

1999-10-05 14:55:40# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla S. Einarssyni fyrir ágæta ræðu um fjárlagafrv. Honum var tíðrætt um stöðu fatlaðra, öryrkja og lágtekjufólks.

Nú er það þannig að stefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til þess að atvinnuleysi er nánast horfið. Sér ekki hv. þm. að staða þessa fólks hefur gerbreyst? Sérstaklega öryrkja og fatlaðra sem geta fengið vinnu sem þeir gátu ekki áður þegar atvinnuleysið var grasserandi. Sér hann ekki líka að lægstu launin hafa hækkað vegna þess að komin er eftirspurn eftir fólki í þeim hópi, margir eru jafnvel hættir að vera lágtekjumenn og eru komnir á hærri laun. Sér hann ekki þessa bót á stöðu fólks jafnvel þó að framlög til atvinnuleysistrygginga hafi lækkað úr 3,2 milljörðum niður í 1,8? Er það ekki bara jákvætt? Er ekki jákvætt að minnka framlög til þess þáttar velferðarkerfisins og bæta þar með stöðu þess hóps sem hv. þm. ber svo fyrir brjósti eins og aðrir?

Þá vil ég skora á hv. þm. sem á sæti í hv. fjárln. að vinna að því að auka afganginn upp í 20 milljarða, taka þá peninga raunverulega úr umferð til að kæla efnahagslífið enn frekar niður, stíga varlega á bremsurnar eins og hæstv. forsrh. nefndi í gærkvöldi. Þetta má t.d. gera með því að selja bæði Búnaðarbankann og Landsbankann.