Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 15:34:55 (44)

1999-10-05 15:34:55# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Talsmenn ríkisstjórnarinnar eru afskaplega ánægðir með aðhaldsfjárlögin sín og það er gott vegna þess að sú ofþensla og verðbólga sem nú er verið að reyna að bregðast við er m.a. til komin vegna hagstjórnarmistaka ríkisstjórnarinnar sjálfrar og það hlýtur formaður fjárln. að gera sér vel grein fyrir.

Ég ætla að koma með örfá viðbrögð í stuttu andsvari við ræðu formannsins. Á síðasta ári jókst heildarfjárfesting í atvinnulífinu um tæp 36% og sem hlutfall af landsframleiðslu fór hún í 21%. Það er staðreynd að heildarfjárfesting ríkisins er aðeins 2% af landsframleiðslu og það er innan þessara 2% sem ríkisstjórnin er að reyna að bregðast við með því að draga úr framkvæmdum ríkisins. Hún hefur engin tök á annarri þenslu eða fjárfestingu og það er einn sá vandi sem við blasir og allt of seint er við brugðist.

Formaðurinn sagði, eða réttara sagt ég held að ráðherrann hafi nefnt það, að framlög til sambýla hafi verið aukin. Nú er rekstrarhækkun vegna sambýla sem fóru í gang á liðnu ári. Ég spyr: Er nýr rekstur áætlaður til nýrra sambýla á þessu ári? Ég spyr vegna orða heilbrrh. í umræðum um stefnuræðu forsrh. í gær um framfarir þar sem einn forstjóri er nú yfir stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og 2,5 milljarða eða þar um bil vantar í heilbrigðiskerfið í heild sinni. Þýðir þessi stefnumörkun að haldið verði áfram á sömu braut og að sameining stóru sjúkrahúsanna standi fyrir dyrum? Ég spyr um skatta á vörur og þjónustu sem eru um 4 milljörðum meiri en á síðasta ári, þar af um 900 millj. vegna virðisaukaskatts. Hve mikið af honum er aukinn virðisaukaskattur af bensíni? Það hlýtur að liggja fyrir þar sem bensínálögur og hækkanir og breytingar á bensínverði hafa verið mjög til umfjöllunar hjá ríkisstjórninni.

Svo ætla ég að benda forráðamönnum ríkisstjórnarinnar og talsmönnum hennar í þessari umræðu á að 14 þúsund færri fjölskyldur njóta barnabóta núna en 1997. Menn hafa bent á að það sé vegna hærri tekna. Ríkissjóður fær 20% meiri tekjuskatt af 10% hækkun tekna. En það að skríða yfir viðmiðunarmörk barnabóta í verðbólgu eins og nú, getur hreinlega þýtt tekjurýrnun hjá stórum hópi þessara 14 þúsund fjölskyldna. Þetta bendi ég á vegna hinnar miklu gleði formanns fjárln. með frv.