Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:55:35 (68)

1999-10-05 17:55:35# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:55]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. menntmrh. að það er auðvitað fleira sem kemur til gagnvart rannsóknum. Ég var eingöngu í máli mínu að benda á að hér væru tölur sem segðu okkur að örlítill skortur væri á metnaði. Ég held að það sé vænlegra að við horfum fram á við og ég mun að sjálfsögðu taka þátt í því í fjárln. að bæta þar um betur og fagna þeim samningi sem hæstv. menntmrh. vitnaði til.

Varðandi Námsgagnastofnun er hins vegar alveg ljóst að hún hefur um allt of langt skeið búið við fjárhagserfiðleika og því miður bendir ýmislegt til að framhald verði þar á. En ég fagna að sjálfsögðu því að hæstv. ráðherra getur þess að fjármagn til stofnunarinnar komi eftir fleiri leiðum en fram kemur í þeim texta sem ég vitnaði til.

Varðandi einstaka framhaldsskóla er það að sjálfsögðu þannig að það fækkar og fjölgar nemendum í þeim skólum. Hins vegar er það þannig að sumir þeirra skóla, þar sem kemur fram í töflunni að nemendaígildi lækka, kannast ekki við að þetta sé í samræmi við áætlanir þeirra. Þetta verður að sjálfsögðu nánar skoðað í fjárln. og farið nákvæmlega yfir það. Hins vegar er mjög brýnt og nauðsynlegt þegar sett er fram stefna, eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og einnig í þáltill., að menn taki tillit til þess að þessir skólar gegna mjög mikilvægu hlutverki í byggðum landsins og það er mjög nauðsynlegt í mörgum þeirra að auka fjölbreytni námsvals vegna þess að það er oft og tíðum hluti þess að nemendum fækki þegar ekki er boðið upp á nægilega fjölbreytt námsframboð.