Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:34:18 (77)

1999-10-05 18:34:18# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það hafa engar framkvæmdir verið stöðvaðar, hvorki við Kennaraháskóla Íslands, Þjóðminjasafnið né annað sem hv. þm. vék að. Það sem um var að ræða í Þjóðminjasafninu var að í ljós kom að það þurfti lengri tíma til að undirbúa uppsetningu nýrrar sýningar í safninu miðað við breyttar aðstæður. Það verk var boðið út og þurfti að gefa því lengri tíma en menn ætluðu í fyrstu. Þess vegna var ákveðið að safnið yrði ekki opnað fyrr en árið 2001. Þar af leiðandi er svigrúm til þess að haga fjárveitingum með öðrum hætti en ella hefði verið. Einnig er hér um að ræða frestun á fjárveitingum, eins og fram hefur komið af hálfu ríkisstjórnarinnar, til að draga úr þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Og þessar tvær framkvæmdir eru framkvæmdir á vegum menntmrn. sem það leggur af mörkum til þeirrar viðleitni ríkisstjórnarinnar að draga úr þenslu. Þess vegna er fjárveitingum frestað.

Ég tel hins vegar að hvorugt spilli fyrir framgangi mála, hvorki fyrir Kennaraháskólann né Þjóðminjasafnið. Ef litið er á kennaraskortinn þá er efling fjarnáms talið skynsamlegasta úrræðið til að fjölga kennurum enda krefst það ekki aukins húsnæðis hjá Kennaraháskóla Íslands. Það er talið skynsamlegasta úrræðið til þess að draga úr kennaraskorti. Það sem hins vegar er að gerast hjá Kennaraháskólanum er að við erum að sameina fjóra skóla undir einu þaki, ef þannig má að orði komast, og þess vegna erum við að flytja leikskólakennaranema og þroskaþjálfanema inn á háskólasvæðið við Kennaraháskólann.

Ég fullyrði að samningurinn sem við höfum gert við Háskóla Íslands tekur mið af þeim kröfum sem settar voru í upphafi um að fjárhagslegt svigrúm háskóla hér á landi væri sambærilegt við starfsvettvang háskóla í Svíþjóð og Danmörku. Tekið er mið af því og því markmiði náð með þeim samningi sem við höfum nú undirritað. Hann gjörbreytir öllum samskiptum ríkisins og háskólans að því er fjármál snertir.