Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:38:04 (79)

1999-10-05 18:38:04# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir ágæta ræðu. Sem fyrr þá hefur hún mikla trú á því að skattleggja en áttar sig ekki á því að skattlagningin breytir skattstofninum. Væri t.d. settur á 100% skattur á tekjur manna þá mundu allir hætta að vinna og tekjur ríkisins yrðu núll. Þetta er þekkt, þetta er svokölluð Leffer-kúrfa.

Það skyldi þó ekki vera að lækkun skatta á fjármagnstekjur, sérstaklega á söluhagnað, hafi stóraukið tekjur ríkissjóðs eins og komið hefur í ljós? Lækkun skatta á fyrirtæki hefur líka stóraukið tekjur ríkissjóðs. Hvort er betra að hafa háa skatta og drepa niður atvinnulífið eða að láta ríkissjóð fá tekjur til að geta haldið uppi velferðarkerfinu?

En hv. þm. kom inn á annað sem ég vildi gjarnan spyrja hana um. Hún segir að skuldir heimilanna hafi aukist svo og svo mikið vegna verðbólgunnar, vegna verðtryggingar lána. Hún gleymir því að af þessari 4,9% hækkun vísitölu eru 1,5% vegna hækkunar á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Það þýðir að 10 millj. kr. eign hefur hækkað um 12%, þ.e. um 1,2 milljónir, sem er jákvætt fyrir eigandann, en skuldirnar hafa ekki hækkað nema, ef maðurinn skuldar 5 milljónir, um tvö hundruð þúsund kall.

Eignamyndun þessarar fjölskyldu vegna verðlagsþróunar undanfarins árs er 1 milljón í plús. Menn geta ekki bara litið á skuldaaukningu heimilanna heldur líka á eignirnar, hvernig þær hafa hækkað. Það er jákvætt.

Stór hluti af þeirri vísitölu og hækkun sem hefur orðið undanfarið er vegna þess að íbúðarhúsnæði hefur hækkað, sem er eignamegin hjá íbúðareigendum. Það er jákvætt fyrir þá.