Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:43:18 (82)

1999-10-05 18:43:18# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar kom að því að ég og hv. þm. Pétur Blöndal vorum sammála. Ég er sammála hv. þm. um að við leggjum á skatta til að afla ríkissjóði tekna, til að ríkissjóður geti staðið undir þeim væntingum sem við gerum til hans. Við höfum ákveðnar væntingar til ríkissjóðs um að hann standi undir góðu heilbrigðiskerfi, að hann standi undir góðu menntakerfi --- að hann standi undir velferðarkerfi sem við viljum kannast við. Til þess verðum við að afla tekna. Til þess að afla tekna þá leggjum við á skatta, alveg eins og hv. þm. Pétur Blöndal lagði hér til. Ég er honum hjartanlega sammála.