Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 19:51:34 (91)

1999-10-05 19:51:34# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[19:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hæstv. fjmrh. afsökunar hafi ég fest í einhvers konar meinloku í ræðu minni áðan varðandi hugtakanotkun. En hæstv. ráðherra má ekki seilast um hurð til lokunar í hita augnabliksins og halda því fram að ég hafi látið að því liggja að hann legði það í vana sinn eða hefði einhvern tíma komið inn í þingið vitandi vits til þess að bera fram rangar upplýsingar. Ég gaf tvo möguleika og sagði að annaðhvort hafi hann gert það eða að hann hefði ekki nægilega innsýn í gangvirki hagstjórnarinnar og ríkisfjármálanna. Ég svaraði síðan spurningunni sjálfur, að ég hefði þá reynslu af hæstv. ráðherra að hann mundi alls ekki koma hér vitandi vits og flytja rangar upplýsingar. Þar af leiðandi taldi ég niðurstöðuna seinni möguleikann. Ég dró þá ályktun að ef hann hefði tvisvar, að mínu viti, haft rangt fyrir sér þá gæti hann haft rangt fyrir sér í þriðja skiptið líka, þ.e. núna um forsendur fjárlaganna.

Hæstv. ráðherra sagði síðan að svar hans við spurningu minni um hvað væri verið að gera til þess að koma böndum á viðskiptahallann væri að finna í fjárlagafrv. Og hann spurði síðan: Skyldu ekki sérfræðingarnir sem ég hef verið að vísa til telja að svo væri? Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að nota tíma sinn á næstu dögum til þess að spyrja helstu sérfræðinga í þessum málum um það hvort fjárlagafrv. gangi nægilega langt.

Ég sagði líka að ég dragi ekki í efa viljann en ég dreg í efa, miðað við þau mistök sem hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn hans hefur áður gert í þessum málum, að það tiltölulega stóra skref sem stigið er með fjárlagafrv. dugi. Ég er ekki viss um það. Ég er sem sagt ekki viss um að afgangur upp á 15 milljarða sé nægur. Ég leyfi mér að draga það í efa. Ég held að ef hæstv. fjmrh. ætli sér að koma böndum á stöðuna eins og hún er í dag þá þurfi að stíga erfiðara og sársaukafyllra skref. Og það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma til mín og spyrja mig, eins og mér fannst hann vera að spyrja stjórnarandstöðuna hérna áðan, eða okkur sem erum sama sinnis: Hvað viljið þið gera? Hann er sá sem stýrir og á að koma með svörin ef hann telur að það séu spurningar og vandamál í dæminu. Það er augljóst að hann virðist þeirrar skoðunar að hann kunni e.t.v. að hafa stigið skref sitt eilítið of stutt.