Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 19:53:54 (92)

1999-10-05 19:53:54# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[19:53]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei haldið því fram að mér gæti ekki skjátlast. Ég var einmitt að viðurkenna það hér áðan að mér hefði skjátlast vegna þess að ég var ekki með nægilega góðar upplýsingar í vor. Auðvitað getur það vel verið. Ég hef meira að segja sagt það hér sjálfur og sagði það á kynningarfundinum í fjárln. að allar forsendur í þessu frv. rætist ekki 100%. Vitum við það ekki öll? Þarf eitthvað að vera að ræða það hér að forsendur geta breyst og tekjur og gjöld breytast alveg eins og á árinu í ár?

Hitt atriðið er hvort nægilega þungt sé stigið til jarðar í þessu máli. Ég þekki engan fjármálaráðherra og hef kynnst mörgum í gegnum árin sem er nokkurn tíma ánægður með þann afgang sem hann skilar. Ég þekki hins vegar marga sem hefðu viljað ná betri og meiri árangri. Ef það er unnt við núverandi aðstæður þá náttúrlega mun ég fagna því fyrstur manna og sömuleiðis liðveislu hv. þm. í því máli, ef koma þarf einhverjum hliðaraðgerðum eða nýjum hugmyndum í gegnum þingið. Ég veit að það munar mjög um stuðning hans í því efni.

Að öðru leyti vil ég þakka þingheimi fyrir málefnalegar og góðar umræður og vænti þess að fjárln. gangi rösklega til verks í þessu mikilvæga máli.