Skattfrelsi norrænna verðlauna

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 11:01:42 (149)

1999-10-07 11:01:42# 125. lþ. 5.5 fundur 4. mál: #A skattfrelsi norrænna verðlauna# frv. 126/1999, PHB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[11:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að það er mjög jákvætt að minnka valdaframsal til framkvæmdarvaldsins og eiginlega mjög nauðsynlegt í ljósi þess að við viljum hafa aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. (ÖS: Skattalækkun, Pétur.) Kemur, kemur.

Herra forseti. Ég er á móti öllum undanþágum í skattkerfinu. Ég hef flutt frv. um afnám sjómannaafsláttar. Ég hef flutt frv. um að afnema skattfrelsi forseta Íslands og ég er á móti því að verið sé að veita sérstaka skattafslætti, t.d. við viss verðlaun. Ég skil ekki hvers vegna hægt er að hafa verðlaun sem einhver fær skattfrjáls á meðan launin sem annar fær fyrir að vinna uppi á hálendinu eða í þágu ríkisins eða annars staðar eru skattskyld undir drep. Ég skil ekki heldur varðandi gjafir, að það sem ég gef t.d. hæstv. fjmrh., ef ég gæfi honum einhverja gjöf, þá er það skattskylt hjá honum. En þessi verðlaun eru ekki skattskyld.

Ég hef því mjög miklar efasemdir um skattfrelsi þessara verðlauna. Hins vegar tek ég undir þá stefnu sem hér er mörkuð að færa þetta frá reglugerðarheimildum ráðherrans yfir í löggjöf og styð frv. að því leyti. En ég hef efasemdir um svona undanþágur og ívilnanir í skattheimtunni. Mér finnst að skattalög eigi að vera almenn og algild og gilda fyrir allar tekjur og alls staðar og að menn eigi frekar að vinna að því að lækka skattana umtalsvert þannig að ekki sé stöðugt verið að refsa fólki fyrir að vinna.