Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 13:43:26 (179)

1999-10-07 13:43:26# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[13:43]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Grundvallaratriðin við endurskoðun fiskveiðistefnunnar eru ljós. Þau koma fram í stjórnarsáttmálanum. Þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Nefnd verði þegar skipuð til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða með hagsmuni sjávarútvegsins, byggðanna og alls almennings í landinu fyrir augum.``

Sátt og hagsmunir byggðanna eru algerlega óaðskiljanlegir þættir. Það verður engin sátt um fiskveiðistjórnarkerfi sem raskar svo grundvelli byggðanna eins og nú er, skapar óöryggi og ýtir undir þá byggðaröskun sem kostar þjóðfélagið marga milljarða á ári í glötuðum og óþarfa fjárfestingum. Enginn skyldi láta sér það til hugar koma að um slíkt fyrirkomulag verði nokkurn tíma sátt. Þess vegna er augljóst mál að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er krafa um breytingu, breytingu í þá átt sem styrkir byggðirnar og eykur atvinnuöryggi þess fólks sem starfar að sjávarútvegi um land allt.

Þetta er það vegarnesti sem nefndarmenn í endurskoðunarnefnd vegna laga um stjórn fiskveiða hafa fengið. Þeir eru bundnir af þessum ramma og þeim ber pólitísk skylda til þess að starfa innan hans.

Vitaskuld má alltaf deila um það hvernig skipa á nefnd af þessu tagi. Eitt var þó ljóst í huga mínum, það hefði verið algerlega ófært að skipa nefndina með tilnefningum frá svonefndum hagsmunaaðilum. Slíkt hefði verið ávísun á innantómt ströggl sem hefði engu skilað. Þessa aðila kallar nefndin hins vegar væntanlega til sín og heyrir álit þeirra og fjölmargra annarra. Sú uppbygging nefndarinnar sem hæstv. sjútvrh. kaus er ofur eðlileg af pólitískt skipaðri nefnd af þessu tagi. Sjö manna nefnd er örugglega hámarksfjöldi ef nefndin á að ná árangri og skila tillögum innan ekki of langs tíma. Nefndin endurspeglar ákveðin pólitísk viðhorf, styrkleikahlutföll líkt og langoftast hefur tíðkast. Það að Frjálslyndi flokkurinn á ekki fulltrúa í nefndinni er afleiðing þess að flokkurinn hlaut ekki meira heildarfylgi í kosningum en raun ber vitni.

Aðalatriði málsins er hins vegar ekki uppbygging nefndarinnar heldur það veganesti sem nefndin fær í upphafi starfs síns og hvernig hún vinnur að verkefni sínu. Hennar mikla vandaverk er að skila tillögum sem sátt getur ríkt um í stað þess mikla sundurlyndis sem ríkir nú og tillögum sem styrkja byggðir en eru þeim ekki ógn eins og núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er vissulega.