Skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 14:08:02 (190)

1999-10-07 14:08:02# 125. lþ. 5.94 fundur 39#B skipun nefndar til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að á síðasta kjörtímabili var skipuð auðlindanefnd. Ef ég veit rétt áttu allir fulltrúar sem þá áttu fulltrúa á þinginu sæti í þeirri nefnd. Ég held að þingflokkur Kvennalistans hafi aðeins átt þrjá fulltrúar á þinginu. Ef ég man rétt klofnaði sá þingflokkur upp í tvennt og varð tveir og einn. Ég held að þær hafi ekki verið settar út úr neinni nefnd þrátt fyrir það.

Sama var í stjórnarskrármálinu. Í þingsköpum segir að það teljist þingflokkur ef tveir eru saman í flokki. Mér finnst því að það gæti svolítið sérstakra tilburða við að halda okkur í Frjálslynda flokknum utan við nefndarstarf og menn leggi sig talsvert fram um það að sjá til þess að við séum ekki þar innan búðar og komum skoðunum okkar ekki á framfæri þar eða fáum að fylgjast með þeim málum.

Ég vil þó aðeins segja það út af orðum manna, m.a. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, að hann hafði áhyggjur af því að við gætum illa talað saman í stjórnarandstöðunni. Það er mikill misskilningur. Okkur hefur gengið ágætlega að tala saman um málin og ég kvíði því ekki að þeir sem núna sitja í þessari nefnd muni ekki upplýsa mig og okkur í Frjálslynda flokknum um þessi mál.

Ég vil svo að lokum þakka þingmönnum fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni. Mér fannst fullt tilefni til þess að taka málið upp og hef ekki séð að svör ráðherrans breyttu þar neinu.