Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 15:31:50 (220)

1999-10-07 15:31:50# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun eins og kom fram áðan beita mér fyrir skjótri afgreiðslu málsins. Ég held hins vegar að við séum með mjög vandasamt og viðkvæmt mál. Ég sé ekki hvernig hægt er að komast hjá því að fá til viðtals við nefndina fjölmarga gesti, hagsmunaaðila, og við skulum minnast þess þó að ég hafi ekki getið um það í ræðu minni að hér er að sjálfsögðu ekki eingöngu um samspil framkvæmda og náttúru að ræða, heldur eru hér líka gríðarlega miklir hagsmunir byggða, mannslífs og atvinnulífs þjóðarinnar. Þannig verður ekki hjá því komist að vinna þetta mál svo að sómi sé að.

Ég mun ekki nýta slíkar aðferðir til þess að tefja málið frá afgreiðslu þess. Ég tel að það sé mjög þarft og mun styðja framgang þess allan en við verðum þó að taka tillit til þess að þingið kann að hafa önnur mál til umfjöllunar á sama stigi og óþarfi er að vinna það verk í tvígang.