Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 16:22:44 (240)

1999-10-07 16:22:44# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að mér fróðari í þessum málum er hv. 1. flm. tillögunnar, Kolbrún Halldórsdóttir. Ég hef hlustað mjög á röksemdir hennar í þessum málum og leyfi mér að fullyrða að þar erum við á einu máli.

Hv. þm., sem eflaust mun gera nánari grein fyrir afstöðu sinni, sagði að hún krefðist þess --- og undir það tek ég --- að Fljótsdalsvirkjun færi í umhverfismat. Að sjálfsögðu mundi hún hlíta þeirri niðurstöðu sem þar kæmi fram ef farið væri í öllu ferlinu lögformlega fram, hlíta þeirri niðurstöðu í þeim skilningi að það er niðurstaðan.

Hitt er svo allt annað mál að við erum andvíg Fljótsdalsvirkjun á mörgum öðrum forsendum einnig. Fyrir því höfum við gert mjög rækilega grein. Ég hélt að allir mundu skilja þetta og ég held að allir hafi skilið það aðrir en þeir sem vilja reyna að snúa út úr þessu máli.

Hér í þinginu bíður önnur tillaga --- reyndar er það lagafrumvarp --- um að gera þjóðgarð um Snæfell. (Gripið fram í: Það er tillaga.) Er það þáltill. sem þar liggur fyrir? Þar kemur afstaða okkar mjög skýrt fram.

Afstaða okkar er mjög skýr í málinu. Hér erum við að fjalla um það að farið sé að lögum um umhverfismat varðandi Fljótsdalsvirkjun. Það er tillaga okkar og við krefjumst þess að það verði farið að landslögum í þessu efni.