Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 17:29:13 (263)

1999-10-07 17:29:13# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[17:29]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilefni andsvarsins er að svara ummælum hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur er lúta að áhrifum á byggðirnar fyrir austan. Ég tek undir orð hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar sem sagði að hluti af því sem við erum að biðja um er einmitt það að þetta verði metið á faglegan máta því að hluti af lögformlegu mati á umhverfisáhrifum er að meta áhrif framkvæmdarinnar á byggðina og samfélagið. Við erum að biðja um að þetta verði metið á lögformlegum nótum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en vil hins vegar nefna að við komum til með að kalla eftir því í umhvn. að kannanir sem gerðar hafa verið erlendis verði birtar okkur varðandi áhrif á samfélög í nágrannalöndunum. Við höfum nefnilega reynslu af því, það er bæði reynsla af því í Noregi og Skotlandi, að setja upp álverksmiðjur í fámennum samfélögum. Reynslan er bæði góð og slæm. Við komum til með að kalla eftir niðurstöðum rannsókna sem hafa verið gerðar í þessum samfélögum. Og mig langar að nefna það hér að tvær álverksmiðjur sem hafa verið settar upp í Skotlandi hafa ekki gengið vel, önnur meira að segja svo illa að starfsemi hennar hefur verið hætt. Báðar þessar verksmiðjur voru reistar til þess að bjarga byggð í ákveðnum landshlutum. Það er nefnilega ekki einhlítt að þetta meðal dugi. Við erum að tala um 480 þúsund tonna álver sem útheimtir þegar það er fullbúið 640 störf plús afleidd störf sem má gera ráð fyrir að séu 1--2 á hvert af þeim 640 sem við erum að tala um. Þar með erum við komin upp í 1.000--1.200 manns sem kæmu til með að þurfa að starfa í álverinu og afleiddum störfum. Í byggðarlagi þar sem núna búa rétt um það bil 700 manns, þ.e. Reyðarfirði, sýnist mér verða afskaplega mikið ójafnvægi. Jafnvel þó allt byggðarlagið sé talið, þá erum við að tala um rétt rúmlega 3.000. Að koma með vinnustað þar sem eiga að vera 640 störf, plús öll afleiddu störfin, gæti orsakað kollsteypu í samfélaginu. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef líka áhyggjur af Reyðfirðingum sem segja við mig: ,,Ég bíð eftir að álverið verði samþykkt svo að ég geti selt húsið mitt á fullu verði og flutt héðan burt.``