Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:12:54 (276)

1999-10-07 18:12:54# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði mjög skoðanir hv. þm. og skil baráttu þingmannsins fyrir hagsmunum byggðar sinnar. En við verðum í þessum ræðustól og í þessum sal að skoða þetta mál frá öllum hliðum og gera ekki hvert öðru upp þær skoðanir að við virðum ekki andstæð sjónarmið eða hagsmuni. Það er einmitt það sem er verið að biðja um. Svo að ég endurtaki það, er verið að biðja hér um mat á umhverfisáhrifum þar sem hagsmunir byggðanna, lífið í fjórðungnum, náttúrufar og valkostir allir séu metnir. Um þetta er einfaldlega verið að biðja.

Ég tek því ekki vel að snúið sé út úr orðum mínum til þess að reyna að mála mig út í horn með því að ég sé einhver sérstakur óvinur Austurlands, þó svo að hv. þm. hafi ekki nýtt það, það er ekki það sem ég á við. En hjá hv. þm. kemur einmitt fram, ef ég misskildi ekki orð hv. þm., mismunurinn á lífsviðhorfum okkar í þessu máli, ef við getum orðað það svo, þar sem hv. þm. tekur undir það að vegir opna landið fyrir ferðamönnum. Það er einmitt þetta að menn sjá ekki fegurð hins ósnortna og það að við höfum skyldur ekki aðeins gagnvart okkur Íslendingum og framtíðarhagsmunum á Íslandi heldur gagnvart Evrópu og gagnvart heimskautasvæðum við að gæta hins ósnortna víðernis fyrir norðan og norðaustan Vatnajökul.

Með því að fara út í Fljótsdalsvirkjun, og það voru rök mín, þá erum við ekki aðeins að fórna Eyjabökkunum, við erum að fórna Dimmugljúfrunum líka. Og þá segja menn: ,,Hvað svo sem um það? Er ekki nóg af söndum þarna? Er ekki nóg svæði? Þetta er ekki nema hálft prósent af þessu öllu saman.`` En þessar virkjanir verða eins og strik í gegnum fagra mynd. Myndin er ónýt.