Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 07. október 1999, kl. 18:15:04 (277)

1999-10-07 18:15:04# 125. lþ. 5.12 fundur 7. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem er verið að semja um núna á Austurlandi er 120 þús. tonna álver á Reyðarfirði. Menn hafa rætt að hugsanlega komi til stækkunar á því álveri, ef það er talið hagkvæmt og ef til þess fengist orka. En um það liggja ekki nokkrir einustu samningar núna og reyndar liggja ekki fyrir neinir einustu samningar um þessar framkvæmdir yfir höfuð. Það eru viljayfirlýsingar um að semja um 120 þús. tonna álver og til þess á að nýta orkuna úr Fljótsdalsvirkjun. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um að virkja Kárahnjúka og við höfum ekki tekið neina ákvörðun um að virkja Jökulsá á Fjöllum og örugglega ekki ákaflega fallegan ónefndan foss í Jökulsánni, hvað þá aðrar virkjanir.

Við erum að tala um Fljótsdalsvirkjun og 120 þús. tonna álver á Reyðarfirði. Um það snýst þetta, ekki um Kárahnjúkavirkjun.