Greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 13:45:53 (372)

1999-10-12 13:45:53# 125. lþ. 7.7 fundur 67. mál: #A greiðslur ríkissjóðs á bótum þolenda afbrota# (skilyrði bótagreiðslu) frv. 118/1999, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Með frv. er lagt til að lögfest verði heimild til að víkja frá skilyrðum fyrir bótagreiðslu í 6. gr. laganna.

Samkvæmt umræddri 6. gr. laganna er skilyrði fyrir greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Þá skal umsókn um bætur hafa borist bótanefnd, sem starfar samkvæmt lögunum, innan tveggja ára frá því að brot var framið.

Umboðsmaður barna hefur vakið athygli á að þessi skilyrði eigi illa við þegar um kynferðisbrot gegn börnum er að ræða. Af því tilefni er þetta frv. flutt en við samningu þess hefur einnig verið litið til hliðstæðra laga á Norðurlöndum.

Við ákveðnar aðstæður getur verið rétt að víkja megi frá skilyrðum í 6. gr. laganna. Það á sérstaklega við þegar brotið er gegn barni en það hefur oft ekki náð þroska til að gera sér grein fyrir því að brot hafi verið framið auk þess sem aðstæður barns til að kæra brot geta verið takmarkaðar, t.d. vegna náinna tengsla milli barns og brotamanns. Þótt frv. þetta miði fyrst og fremst að því að styrkja réttarstöðu barna sem þolenda afbrota þykir rétt að gera ráð fyrir því að í fleiri tilvikum kunni að vera ástæða til að víkja frá skilyrðum 6. gr. laganna. Af þeim sökum er ekki lagt til að heimild þessi verði bundin við tilvik þar sem börn eiga í hlut.

Herra forseti. Ég hef rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.