Skráð trúfélög

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 13:57:10 (375)

1999-10-12 13:57:10# 125. lþ. 7.8 fundur 69. mál: #A skráð trúfélög# (heildarlög) frv. 108/1999, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ábendingar hans og tek undir með hv. þm. að ef mönnum finnst eitthvað vera óljóst í sambandi við texta frv. er um að gera að þeim spurningum sé svarað og ég treysti hv. allshn. til að vinna vel í þessu máli. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsum atriðum sem hv. þm. nefndi, t.d. hvað varðar skólahald.

Það sem hann nefndi sérstaklega um 7. gr. um að forstöðumaður trúfélags þurfi hvorki að hafa ríkisborgararétt né búsetu hér á landi þá lét ég þess sérstaklega getið í framsögu minni að það þætti óþarfi að hafa slík skilyrði og horfði frekar til þrengingar á trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar vegna þess að við getum verið með trúarbragðahreyfingar þar sem forstöðumenn eru erlendis og koma ekkert til með að verða búsettir hér á landi en það geta samt sem áður verið aðilar hér á landi sem vilja iðka þá trú.

Í trúfrelsi felst í fyrsta lagi réttur hvers og eins til þess að iðka þau trúarbrögð sem sannfæring hans býður. Í annan stað að réttindi í þjóðfélaginu séu almennt ekki bundin við tiltekin trúarbrögð og í þriðja lagi að enginn sé neyddur til að gjalda persónuleg gjöld til trúarbragða sem hann sjálfur ekki aðhyllist.

En þessar umræddu reglur um skráningu trúfélaga hafa engin áhrif á frelsi manna til að ástunda þau trúarbrögð sem þeim þóknast, hvort sem þeir gera það einir sér eða í félagi við aðra. Skráð trúfélög --- af því það var nú sérstaklega spurt um þau --- njóta sérstakrar stöðu að íslenskum rétti. Þau njóta verndar samkvæmt stjórnarskrá og almennum hegningarlögum og athafnir forstöðumanna þeirra hafa borgaraleg áhrif, svo sem hjónavígsla.

Í frv. sem hér er rætt um er skerpt á því viðtekna viðhorfi sem teljast verður sjálfsagt, að aðeins eiginlegt trúfélag geti fengið opinbera skráningu og réttarstöðu sem því fylgir. Skýrari ákvæði að þessu leyti tryggja m.a. að hægt sé að hamla skráningu málamyndarfélaga sem hafa engan trúarlegan tilgang en sett eru á stofn aðeins til þess að fá aðgang að opinberu fé. Skilyrði skráningar tryggja að aðeins raunveruleg trúfélög hljóti skráningu en ekki hvers kyns félög sem boða lífsskoðanir.

Ég vil láta þetta koma fram ef þau atriði frv. hafa verið eitthvað óljós að mati hv. þm. Að öðru leyti vísa ég til greinargerðar og athugasemdar með frv. sem eru mjög ítarlegar og ég treysti því að hv. allshn. fjalli ítarlega um málið.