Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 14:53:16 (391)

1999-10-12 14:53:16# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi eitthvað misskilið mál mitt áðan þegar hann minntist á að þetta væri ekki mál vinstri grænna. Ég er ekki gamalreyndur þingmaður eins og hann en ég geri mér fulla grein fyrir því að mál af því tagi sem hér er uppi þarf breiðan stuðning og ég veit að það hefur það. Það hefur bæði stuðning í Samfylkingunni og í stjórnarflokkunum þannig að ekki þarf að velta sér upp úr málflutningi af þessum toga.

Ég nefndi líka áðan að ég gerði mér grein fyrir því að breyting á 6. gr. laga um staðfesta sambúð væri áfangi og það væri fær leið. En ég vil árétta það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að ég lagði áherslu á að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vildum að skrefið yrði stigið núna til fullnaðarsigurs hvað varðar samkynhneigða varðandi þetta frv. Það væri með því að setja inn þessi fullu réttindi í I. kafla laganna. Það eru ákvæði um einstaklinga, það eru þar ákvæði um sambúðarfólk. Af hverju ekki að vera með ákvæðið þar sem tryggir full réttindi sambúðarfólks í staðfestri sambúð?

Þetta er kjarni málsins. Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð og ég árétta enn og aftur að ég geri mér fulla grein fyrir því að það er víðtækur stuðningur fyrir því að stíga þetta skref. Ég held að Alþingi Íslendinga ætti að nota tækifærið af því að við erum með þetta frv. á borðunum og af því að þetta er svo örlítil breyting en gerir svo stórt að taka hana núna.