Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:55:41 (424)

1999-10-12 16:55:41# 125. lþ. 7.12 fundur 9. mál: #A réttindi sjúklinga# (vísindasiðanefnd) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:55]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nöturlegt hlutskipti að þurfa að ræða þessa hluti núna eftir á. Í rauninni er mjög ósvífið að tefla fram þessum einstaklingum sér til varnar en þó ætla ég að leyfa mér að segja að af þeim sem hér voru taldir upp minnist ég nokkurra sem hafa haft uppi áróður fyrir Íslenska erfðagreiningu á liðnum mánuðum. Ég leyfi mér að efast um heilindi stjórnvalda og hæstv. ráðherra og ráðuneytisins í þessum efnum. Það er ekki einleikið að þeim sem hafa haft uppi gagnrýni á þennan fyrirhugaða samning sem ríkisstjórnin er að gera við Íslenska erfðagreiningu skuli vikið til hliðar.

Varðandi sérfræðingana og tilvitnun mína í ræðu hæstv. ráðherra um að hún treysti sérfræðingum, þá man ég ekki betur en hún væri að vísa til sérfræðinga í tölvunefnd. Sé hins vegar litið til sérfræðinga almennt voru það sérfræðingar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem höfðu vit fyrir sérfræðingum ráðuneytisins. Að það skuli borið á borð að hér sé á ferðinni sjálfstæð nefnd þegar hæstv. menntmrh. í ríkisstjórn skipar skrifstofustjóra sinn en sjálfstæðir aðilar á borð við Siðfræðistofnun háskólans, Læknafélagið, hjúkrunarfræðinga og Lagastofnun eru sviptir réttinum til að tilnefna. Fulltrúar hæstv. ráðherra eru settir í nefndina og síðan á að bera á borð fyrir okkur að þar sé komin alvöru sjálfstæð nefnd. Hins vegar er ég farinn að skilja hvað hæstv. ráðherra á við þegar sérfræðingar gerast traustsins verðir.