Endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:33:24 (451)

1999-10-13 13:33:24# 125. lþ. 8.1 fundur 27. mál: #A endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:33]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. spyr hvernig ríkisstjórnin hyggist standa að endurskoðun laga með hliðsjón af samspili almannatrygginga, skatta og lífeyrissjóða í því augnamiði að draga úr jaðaráhrifum eins og fyrirheit hafa verið gefin um.

Hv. þm. hefur lesið þá yfirlýsingu sem fram kemur í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og lýtur að þessu máli sérstaklega. Reyndar las hann einnig upp nokkurra ára gamla yfirlýsingu sem hafði reyndar örlítið aðrar áherslur. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu hefur raunar nokkuð miðað við að lagfæra skattkerfið og draga úr skattsvikum eins og þar er nefnt. Í framhaldi af þeirri vinnu þótt hún hafi kannski ekki verið mjög umfangsmikil voru stigin skref í þá átt að draga úr jaðarsköttum.

Þetta mál sem hv. þm. gerir hér að umtalsefni er auðvitað afar þýðingarmikið og víðfeðmt, snertir hag tugþúsunda landsmanna. Mikilvægt er að að málinu verði unnið þannig að niðurstaðan geti orðið þeim öllum til hagsbóta en jafnframt verði séð til þess að fjármunir fari ekki í súginn. Þannig munu allir hafa upp úr þessu, bæði ríkið og skjólstæðingar þess.

Til að svara spurningunni sem hv. þm. beindi til mín, þá er það svo að málið heyrir undir tvö ráðuneyti, heilbrrn. og fjmrn., og hefur því verið afráðið að þau standi bæði að málinu undir forustu forsrn. Að málinu verður unnið í tveimur þáttum og þá í upphafi undirbúin vinna ríkisins, þ.e. nú þegar hefur verið skipaður vinnuhópur til að lýsa helstu leiðum til að ná ofangreindum markmiðum. Síðan á að víkka verkefnið út og fulltrúar þeirra fjölmörgu aðila sem ég áðan nefndi koma að málinu til þess að reyna að tryggja að hagsmuna allra verði gætt við vinnslu þess.

Heilbrrn. og hæstv. heilbrrh. hefur þegar fyrir sitt leyti hafið undirbúningsstörf og hafði ráðið mann til starfa við það verkefni, Guðmund G. Þórarinsson fyrrv. alþm. Hann mun einnig starfa með þessum vinnuhópi sem forsrn., heilbrrn. og fjmrn. koma að en í þeim vinnuhópi sitja Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri og aðrir með honum eru Steingrímur Ari Arason, Bolli Þ. Bollason, Þórir Haraldsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson. Með vinnuhópnum mun jafnframt starfa Guðmundur G. Þórarinsson eins og fyrr var gerið. Þetta er sem sagt sá hópur sem á að undirbúa fyrri þátt málsins, leiða lýsinguna að þeim markmiðum sem menn hafa sett sér að ná. Þá tekur við seinni hálfleikur, ef svo má nefna það. Þá verða kallaðir til fulltrúar þeirra samtaka og aðila sem eiga hér hagsmuna að gæta.