Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 11:44:42 (533)

1999-10-14 11:44:42# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[11:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þær athugasemdir sem ég gerði áðan um skýrslu umboðsmanns Alþingis varðandi meðferð skýrslna á hv. Alþingi eiga að sjálfsögðu við líka um skýrslu Ríkisendurskoðunar en þó ætla ég ekkert að endurtaka það sem ég sagði heldur vísa til þess. Þetta er falleg skýrsla og gaman að skoða hana en það sem ég ætla að gera að umtalsefni er sú nýjung í starfi Ríkisendurskoðunar sem umhverfisendurskoðun er og forseti drap á í ræðu sinni.

[11:45]

Í skýrslunni kemur fram að þar til nú hafi verið undirritaðir 220 alþjóðlegir umhverfissamningar, langflestir sl. 25 ár, og að Ísland eigi aðild að 20 slíkum samningum að ógleymdum EES-samningnum, en með fullgildingu hans ákváðu íslensk stjórnvöld að taka upp stóran hluta löggjafar Evrópusambandsins á sviði umhverfismála.

Það er líka bent á að auk lagalega bindandi samninga eigi íslensk stjórnvöld aðild að ýmsum viljayfirlýsingum, áætlunum og stefnumörkunum sem unnar eru á alþjólegum vettvangi án þess að vera beinlínis skuldbindandi í skilningi þjóðarréttar. Þar er nefnd Ríó-yfirlýsingin og Dagskrá 21. Önnur alþjóðleg áætlun er nefnd sem er áætlun um varnir gegn mengun sjávar. Það er líka drepið á ýmsar innlendar reglur svo sem eins og um skipulag og nýtingu hálendisins o.fl.

Það er mjög merkilegt að Ríkisendurskoðun skuli gera þessar áætlanir og alþjóðasamninga að umtalsefni og fjárfesta í starfsmönnum til að verða aðili að umhverfisendurskoðun sem hefur verið í þróun hjá alþjóðasamtökum ríkisendurskoðenda, ekki síst vegna þess að, eins og fram kemur í skýrslunni, þá endurspeglast þessir alþjóðasamningar og áætlanir í umfangsmiklum lögum, reglugerðum og áætlunum hjá okkar eigin stjórnvöldum, áætlunum og lögum sem setja kvaðir á ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga. Það kemur fram í þessari nýju umhverfisendurskoðun, sem er nýtt fyrirbæri, að henni er ætlað það hlutverk að kanna hvernig alþjóðlegum samningum, áætlunum, lögum og reglum sé framfylgt af hálfu stjórnvalda og hvort það sé gert á hagkvæman og skilvirkan hátt. Ríkisendurskoðun hefur í raun, með lögum frá 1997, verið heimilt að framkvæma umhverfisendurskoðanir af því tagi sem að framan er lýst. Sagt er frá því að í umhverfisendurskoðun felist það að endurskoða og kanna áhrifin af starfsemi, stefnu og rekstri stofnana og fyrirtækja á umhverfið og fylgjast með því hvort einkaréttarlegir aðilar og opinberir aðilar framfylgja lögum og reglugerðum, svo og reglum og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála. Það er mjög mikilvægt, þar sem Ríkisendurskoðun með lögum frá 1997 fékk þessar heimildir, að tveir starfsmenn hafa verið ráðnir til Ríkisendurskoðunar til þessara starfa.

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi nýi þáttur í starfi Ríkisendurskoðunar frábær. Mér finnst hann mikilvægur og mjög sérstakur. Umhverfismál eru stærsti þáttur samtímans og umhverfið er það sem við verðum að vernda fyrir komandi kynslóðir. Oft ræðum við í sölum Alþingis aðild okkar að alþjóðasamningum, hvaða skyldur þeir leggi okkur á herðar og oft er ágreiningur í þessum sal um það hvort lög okkar eða áform falli að þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Um það er tekist á í þessum sal og oft er ágreiningur milli stjórnvalda, þingmanna stjórnarandstöðu og áhugafólks um t.d. umhverfisvernd í þeim tilfellum er við ræðum alþjóðlega samninga og skyldur á því sviði. Mér finnst það ekki vera alveg ljóst af umfjöllun skýrslunnar um þetta efni hvort Ríkisendurskoðun muni gera úttekt á framkvæmd ríkisvaldsins á alþjóðasamningum. Þess vegna spyr ég, virðulegi forseti, hvort það verði ekki örugglega þannig að hlutverk Ríkisendurskoðunar verði ekki eingöngu að endurskoða og kanna áhrif af starfsemi, stefnu og rekstri stofnana og fyrirtækja á umhverfið og að fylgjast með því hvort einkaréttarlegir aðilar og opinberir aðilar framfylgja lögum og reglugerðum sem við höfum þá sett heldur hvort það sé ekki alveg ljóst að nú fari Ríkisendurskoðun, okkar stofnun, í að skoða hvort þau lög sem eru sett séu í samræmi við skyldur sem við höfum undirgengist og, eins og fram kemur í skýrslu umboðsmanns Alþingis, í þeim tilfellum sem ríkisvaldið setur ekki lög eða hrindir ekki í framkvæmd áætlunum í samræmi við skyldur, þá komi það jafnframt í formi úttektar Ríkisendurskoðunar í skýrslu til Alþingis. Mér finnst mjög gleðilegt að búið sé að ráða starfsmenn til þessara starfa og það er mjög mikilvægt að þá verði líka farið alla leið, þ.e. að Ríkisendurskoðun skili skýrslu um það til Alþingis þegar stjórnvöldum sjálfum verður fótaskortur á sviði alþjóðasamninga og hafa ekki staðið við sínar skyldur.

Virðulegi forseti. Það var fyrst og fremst þetta sem ég vildi gera að umtalsefni í mínu innleggi en auk þess vil ég gjarnan bera fram spurningu til forseta.

Á liðnu ári voru stofnanir á vegum ríkisins og meðferð þeirra mjög í sviðsljósinu og þáttur Ríkisendurskoðunar í úttekt á fjárreiðum og fjármeðferð stofnana. Í þeirri umfjöllun allri kom í ljós að Ríkisendurskoðun þáði laun eða þóknun fyrir endurskoðun sína á ákveðnum stofnunum ríkisins, svo sem eins og t.d. það að endurskoða reikninga viðskiptabankanna. Mörgum þótti að þáttur Ríkisendurskoðunar ætti að vera yfir allan vafa hafinn í þessum efnum og að óþægilegt væri til þess að vita að stofnun, stór eða smá, sem Ríkisendurskoðun skoðaði reikninga hjá, greiddi fyrir verkið.

Þess vegna kem ég með þá fyrirspurn til hæstv. forseta hvort það viðgangist enn þá að Ríkisendurskoðun fái greiðslur frá einhverjum þeim opinberu stofnunum eða fyrirtækjum sem hún endurskoðar vegna þess að það er mín skoðun að þar séu hagsmunaárekstrar og við eigum að búa þannig að Ríkisendurskoðun að engar þannig þóknanir þurfi að greiða.

Virðulegi forseti. Ég hef skoðað rekstraryfirlitið. Ég sé ekki á rekstraryfirlitinu neitt um þetta og því er ég að vonast til að það sé búið að afleggja þennan sið sem mér fannst slæmur. En ég hlýt að biðja um það, ef upplýsingar um þetta liggja ekki fyrir, að kannað verði hvernig þetta sé og upplýsingar veittar áður en umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar lýkur.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti vil ég segja að skýrslan er aðgengileg og frekar ánægjulegt að skoða hana þó að ég sjái að það sem ég leitaði a.m.k. var ekki að finna í skýrslunni.