Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:40:07 (546)

1999-10-14 12:40:07# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm., núv. hæstv. forseti Alþingis, hefur nú oft flutt tölur af þessum toga og hvorki ég né aðrir hafa botnað mikið í þeim málflutningi.

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við áðan var ekki að ég hefði á móti því að hæstv. forseti talaði við umræðuna. Ég fagna því að hæstv. forseti skuli taka til máls. Miklu heldur er ég ósáttur við það hvernig hann nýtti sér þetta málfrelsi. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er á engan hátt við hæfi að hæstv. forseti komi hér upp og geri því skóna að tiltekinn þingflokkur, tiltekinn hluti þingflokks eða tiltekinn þingmaður, ég áttaði mig nú ekki alveg á því hvað hann var að fara, bæri í brjósti ódauðlegt hatur til starfsfólks tiltekins fyrirtækis.

Þetta er þess eðlis, virðulegi forseti, að ég held að menn þurfi að leita langt til þess að finna hliðstæðu. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ef hæstv. forseti hefur hugsað sér að tala svona í umræðum hér á Alþingi og eiga jafnframt samstarf við aðra þingmenn þá er hætta á að samstarfið verði ekki svo gott sem æskilegast væri.