Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:09:25 (565)

1999-10-14 14:09:25# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), Flm. GÖ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[14:09]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég þakka öllum þingmönnum fyrir mjög málefnalega og góða umræðu. Það var mjög áhugavert sem hv. þm. Kristján Pálsson kom að. Þetta var eitt af því sem er talað um erlendis, þ.e. að konur séu lokaðar inni í húsum og tekin af þeim vegabréf.

Þetta er nefnilega líka að gerast hér og ég hefði viljað sjá þetta aðeins skarpar að dómsmrh. tæki af skarið með að gera þessa úttekt á vændi. Gerð var rannsókn árið 1985 af Hansínu B. Einarsdóttur og væri mjög fróðlegt að taka þá rannsókn og skoða sömu þætti og hún skoðaði þá þannig að við fengjum mjög góðan samanburð. Það er mjög margt hægt að gera. Þetta er líka þannig að við verðum öll að leggjast á eitt. Það er enginn undanskilinn. Það þarf breytingar á lögum um atvinnuleyfi en það þarf þessa samvinnu. Við þurfum líka að læra af öðrum þjóðum þannig að við eigum að nýta okkur í rauninni allt það sem er að gerast núna í allri umræðunni í Evrópu.

Ég vil að sjálfsögðu þakka bæði dómsmrh. og félmrh. fyrir að taka þátt í þessum umræðum og vona að þetta leiði til þess að við sjáum ákveðnar breytingar þannig að við getum stöðvað þennan ósóma sem er að gerast hér.