Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:36:45 (609)

1999-10-18 15:36:45# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er væntanlega fleira í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en barnabætur, bætur til einstæðra foreldra eða millifæranlegan persónuafslátt. Þetta hlýtur alltaf að vera spurning um forgangsröðun, hvaða verkefni tökum við fyrst. Ef sjötugur karlmaður sem er heima og kona hans nýtir ónýttan persónuafslátt hans, þá má þessi sjötugi karlmaður ekki hafa neinar eða sáralitlar tekjur til að þetta komi þeim til góða. Hann má ekki hafa tekjur frá Tryggingastofnun, ekki neinar bætur og ekki fá neinar greiðslur úr lífeyrissjóði. Ég held að sem betur fer sé ekki þannig ástatt fyrir mörgum þ.e. að þeir séu algerlega tekjulausir. En þetta er alltaf spurning um forgangsröðun og þarna er ekki miðað við það að fleiri nýti þessa ráðstöfun heldur en þeir sem gera það í dag, rétt rúmlega 19 þúsund hjón og fólk í sambúð. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvaða hópar það eru sem hafa helst nýtt þetta fram að þessu. Ef þetta hefur helst komið barnafólki til góða og hjónum þar sem annar aðilinn stundar nám eða umönnunarbyrðin er þung og mikil heima, þá hefur þetta skilað góðum árangri.

En þá er líka spurningin, hversu stór hópur er það sem fær en ekki endilega þarf á að halda og ef hann er ekki með er þá hægt að stíga skrefin þannig að hækka um 10% á næsta ári og 10% á þar næsta ári til að stíga stærri skref fyrir þá sem á þurfa að halda? Það hefur engin athugun farið fram á þessu og það þarf nauðsynlega að gera í nefndinni.