Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:42:40 (613)

1999-10-18 15:42:40# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alltaf spurningin um hvaða tilgangi barnabæturnar eiga að þjóna eða það sem hv. þm. kallar ómegðarbætur. Vissulega hafa laun hækkað og það er gott. Kaupmátturinn hefur aukist og það er gott. En á þessu ári, hv. þm. Pétur Blöndal, hefur það gerst að kaupmáttaraukinn sem hefur fengist er að étast upp vegna þess að verðbólgan hefur aukist. Ef hv. þm. Pétur Blöndal horfir á línurit með hækkun mikilvægustu neysluliða heldur hv. þm. þá ekki að töluvert sé farið af þeim kaupmáttarauka þegar um er að ræða ungt fólk með barnafjölda heima hjá sér og mikla framfærslubyrði er að koma sér upp þaki yfir höfuðið? Heldur hv. þm. að útgjöldin hafi nú ekki aukist það mikið frá áramótum að kaupmáttaraukinn sé farinn? Kostnaðurinn við húsnæði hefur aukist um 9,8% frá því í september 1998--1999 og matur hefur hækkað um 5,2% á sama tíma, ýmis þjónusta hefur hækkað um 5,8%. Tómstundir hafa hækkað um 2,4%, flutningar, þar inni í er bensínkostnaðurinn, hafa hækkað 5,4% ef við bara miðum við þennan tíma. Ef við hins vegar tökum tímabilið frá september 1996--1999, þá erum við með miklu hærri tölur. Vissulega hefur kaupmátturinn aukist en verðbólgan hefur tekið af honum og barnabæturnar eru skertar. Ekki er tekið tillit til þessara breytinga í fjárlögum hvað varðar barnabætur.