Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:38:22 (623)

1999-10-18 16:38:22# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður vitnaði tvívegis í stjórnarsáttmálann. Hann sagði að ákvæði sem þar er að finna hljóðaði á þá leið að ríkisstjórnin vildi styrkja stöðu fjölskyldunnar sem hornstein þjóðfélagsins og treysta stöðu hennar og velferð. (KHG: Samheldni hennar og velferð.) Samheldni hennar og velferð.

Ég verð að segja, herra forseti, að í mínum eyrum hljómar þetta sem hálfgerð öfugmæli þegar við höfum þá staðreynd fyrir framan okkur að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hefur á fjórum árum skert svo mikið barnabæturnar í góðæri --- ég ítreka, í góðæri, að um 14.000 færri fjölskyldur fá nú barnabætur. Á næsta ári eru það 2.000 færri fjölskyldur. Þess vegna legg ég eina spurningu fyrir hv. þm. Ef við höfum nú takmarkað svigrúm til skattalækkana og við verðum að velja forgang í því efni, hvort telur hv. þm. að eigi að hafa forgang, þ.e. að koma á barnabótum og nýta það skattalega svigrúm til að koma á barnakortinu og rýmka barnabæturnar eða að persónuafsláttur milli hjóna verði að fullu millifæranlegur?