Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:41:04 (625)

1999-10-18 16:41:04# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það fór svo sem mig grunaði að hv. þm. mundi reyna að koma sér hjá að svara einfaldri spurningu: Hvort á að hafa forgang þegar við höfum takmarkað skattalegt svigrúm til að lækka skatta, að koma á barnakorti og rýmka barnabæturnar eða að hafa persónuafslátt milli hjóna að fullu millifæranlegan? Þetta er einföld spurning. Ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að framsóknarmönnum, þar með töldum hv. þm., líður mjög illa þegar við ræðum barnakortin og hvernig farið hefur verið með barnafjölskyldurnar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er staðreynd sem hv. þm. mótmælir ekki að 14.000 færri fjölskyldur fá nú barnabætur og 2.000 færri fjölskyldur fá barnabætur á næsta ári. Þess vegna er þetta eðlileg spurning því að meginkrafa framsóknarmanna í síðustu kosningabaráttu var að koma á barnakortum. Og hv. þm., formaður þingflokks framsóknarmanna, svari þeirri spurningu hvort á að hafa forgang. Auðvitað reynir hv. þm. að koma sér hjá því vegna þess að það virðist stefna í það á þessu kjörtímabili eins og því síðasta að framsóknarmenn fylgja í einu og öllu stefnu sjálfstæðismanna og engan mun er orðið hægt að sjá á stefnu Framsfl. og Sjálfstfl. eins og á síðasta kjörtímabili og stefnir í að verða á því kjörtímabili sem er rétt að byrja.

Þess vegna spyr ég fyrir hönd allra þeirra sem bíða eftir barnakorti hvort eigi að hafa forgang þegar við höfum takmarkað skattalegt svigrúm til þess að lækka skatta hjá fólki.