Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:46:07 (628)

1999-10-18 16:46:07# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vera hálfúrillur í ræðustólnum. (SJS: Hálf hvað?) (Gripið fram í: Úrillur.) (SJS: Já, alveg rosalega.) Ég leyfi mér að vekja athygli á því að hann og annar talsmaður stjórnarandstöðunnar höfðu fjallað um málið án þess að segja hvaða afstöðu þeir hefðu til þess. Og ég leyfði mér að benda á að hvorugur talsmaður stjórnarandstöðunni hafði fyrir því að upplýsa þingheim um hvaða stefnu þeir hefðu haft hvað þetta varðar í aðdraganda kosninga þannig að það mætti vera ljóst hvaða stefnu þessir flokkar hafa í skattamálum.

Það er auðvitað þeirra mál. Þeir ráða því, eins og hv. þm. sagði, hvernig þeir haga sínum orðum og hvað þeir segja o.s.frv. Það er eðlilegt að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni reyni að skoða hvaða ágallar kunna að vera á ýmsum málum og það er þeirra hlutverk. Það er ekkert athugavert við það. En það hlýtur þá að vera eðlilegt að gera kröfu til þeirra líka að þeir geri grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Ég get varla fallist á að tilefni sé til að taka það illa upp þó að á það sé bent.