Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 19:16:02 (729)

1999-10-19 19:16:02# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[19:16]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fyrst af þeim atriðum sem ég ætlaði að nefna í fyrri ræðu minni, en hafði þá ekki tíma til, var varðandi 12. lið þáltill. Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Möller. Við teljum fulla ástæðu að koma til móts við landsbyggðina í skattamálum og það er vel hægt að gera það. Sú hæstv. ríkisstjórn sem hefur verið við völd hefur á stefnuskrá sinni að vera með ívilnun í skattamálum til ýmissa aðila. Ég nefni bara að í stefnuplaggi hennar stendur að ,,þá yrði skattalegum ívilnunum áfram beitt vegna fjárfestinga í hlutabréfum``. Það hlýtur að vera hægt að beita skattalegum ívilnunum til handa landsbyggðinni líka alveg eins og handa þeim sem kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem því miður er kannski ekki eins mikið um úti á landi og annars staðar.

Í 11. lið þáltill. er verið að tala um endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og að lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði hraðað, miðað við að styrkja stöðu sveitarfélaganna og auka fjárhagslegt sjálfstæði þeirra. Ég tek mjög undir þetta. Ég segi alveg eins og er að umræðan í dag, þar sem verið er að ræða um það að fresta einsetningu grunnskólanna, sannfærði mig um að hluti af því dæmi var einmitt að sveitarfélögin hefðu í raun og veru haft þar töluverða viðspyrnu til að óska eftir því að fá meiri peninga til starfsemi sinnar. En með því að taka af þeim þessa kvöð, að einsetja grunnskólana, var um leið opnaður þægilegri möguleiki fyrir ríkisvaldið til að neita þeim um aukna tekjustofna í bili. En það þarf svo sannarlega að taka þar á.

Síðan er það 10. liðurinn. Það er sá liðurinn sem mig langar að tala um hér. Þar er talað um stefnumótun í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum sem ætti að miða að því að treysta byggð við sjávarsíðuna og í sveitum landsins. Þarna hefur hæstv. ríkisstjórn gjörsamlega brugðist í langan tíma. Það er engin spurning um að hnignun sjávarbyggðanna allt í kringum landið er að stórum hluta til vegna stefnunnar í sjávarútvegsmálum og eignarhaldsins á veiðiheimildunum. Ég tek innilega undir það sem hv. þm., sem talaði fyrir hönd vinstri grænna um þetta mál áðan, sagði að það er engin spurning að þetta hefur valdið vantrú á byggðirnar. Fólk trúir ekki á framtíð sjávarútvegsbyggðanna. Ég tel að þarna þurfi að verða breyting á. Og þá fyrst verður hægt að reisa sjávarútvegsbyggðirnar úr þeim rústum sem þær eru komnar í þegar fólkið fær trú á að búa þar og veit að það sem skapaði byggðirnar er möguleikinn til að nýta auðlindina við ströndina verði til staðar.

Til viðbótar við þetta langaði mig að segja fáein orð um það sem hv. 3. þm. Vestf. ræddi, hann sagði að við hefðum farið í einhverja auglýsingaumræðu um byggðamál. Verði honum að góðu, hann má kalla það hvað sem hann vill. Við munum krefjast umræðu þegar okkur finnst ástæða til. Sannarlega er ástæða til að ræða um byggðamál hér á hv. Alþingi. Hv. þm. sagði líka að stefnuleysi þeirra í atvinnumálum sem hafa lagt fram þetta mál kæmi fram í tillögunni. Ég spyr þá um stefnu ríkisstjórnarinnar sem segist stefna í norður en hrekst í suður. Það hefur ekki legið fyrir annað en að hæstv. ríkisstjórnin, sem hefur setið hér, bæði núna og á síðasta kjörtímabili, hafi viljað gera eitthvað annað en gerðist. Enginn efast um heilindi hv. þm. sem hafa stutt ríkisstjórnina. Þeir vildu ekki að byggðaflóttinn héldi áfram. Þeir vildu ekki að eyðibyggðastefnan sem hefur verið í gangi undanfarin ár héldi áfram. En það varð bara þannig. Það hefur svo sannarlega ekki orðið lát á. Stefnan er sögð í norður en skipið hrekur sífellt sunnar.

Mér finnst hv. þm. stjórnarliðsins vera dálítið kotrosknir þegar þeir koma upp og eru að tala um að aðrir hafi einhverja stefnu sem sé óljós þegar stefnunni sem þeir lýsa er ekki betur fylgt eftir en það að hana hrekur sífellt í hina áttina.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sakna þess að hæstv. forsrh. skyldi ekki vera hér áfram, ekki treysta sér til þess að sitja áfram yfir umræðunni, hæstv. ráðherra byggðamála, búinn að vera á níunda ár í þessu hlutverki, hafandi séð á ellefta þúsund Íslendinga flytja til höfuðborgarsvæðisins og hafandi ekki séð að neitt gengi upp af því sem hæstv. ráðherra hefur verið að tala um að ætti að gerast í byggðamálum.

Mér finnst satt að segja hálf leiðinlegt að vera að skamma Albaníu, hv. þm. Jón Kristjánsson, þegar hæstv. forsrh. er farinn. Mér finnst að það þyrfti alveg sannarlega að taka nýja umræðu um byggðamál og til að reyna með einhverjum ráðum að tryggja að hæstv. ráðherra verði til staðar.