Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:45:37 (740)

1999-10-20 13:45:37# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ríkisútvarpið hefur frá fyrsta degi starfsemi sinnar verið sannkallað óskabarn þjóðarinnar. Þar hefur íslensk menning fengið að þroskast og margir okkar helstu andans menn stigið sín fyrstu skref. Með Ríkisútvarpið sem eina ljósvakamiðil þjóðarinnar þar til á síðasta áratug náðist um það mikil sátt og starfsemi þess þróaðist í takt við þjóðarviljann. Ríkisreknir ljósvakamiðlar eru ekkert einsdæmi eins og allir vita. Margir slíkir lifa góðu lífi í hinum vestræna heimi. Má þar nefna BBC, breska ríkisfjölmiðilinn, sem staðið hefur af sér alla samkeppni síðustu áratuga.

Ríkisrekstur ljósvakamiðla með pólitískt kjörnum eftirlitsmönnum er þó fyrirkomulag sem stenst varla tímans tönn og er barn síns tíma. Hjá flestum fyrirtækjum í ríkiseigu sem taka þurfa þátt í þeirri miklu samkeppni sem ríkir er talið lífsnauðsynlegt að rekstrarformi fyrirtækjanna sé breytt í hlutafélagaform eða þau seld einkaaðilum með ákveðnum skyldum. Hvor leiðin um sig stefnir að nútímastjórnunarháttum með stuttum boðleiðum og námkvæmri skilgreiningu á hver beri ábyrgðina á rekstri fyrirtækisins.

Allir sjá hve þunglamalegt það er að hafa í stjórn fjölda pólitískt kjörinna eftirlitsmanna yfir Ríkisútvarpinu sem taka ákvarðanir með pólitíska stefnu flokkanna að leiðarljósi. Slíkt er ekki lengur trúverðugt. Það hefur m.a. sýnt sig í ráðningarmálum þar sem margsinnis hafa opinberast póltískar fylkingar nefndarmanna í útvarpsráði.

Það gefur augaleið að allar ákvarðanir sem geta skipt sköpum fyrir stofnunina taka of langan tíma. Þróunin verður því óhjákvæmilega sú að ákvarðanir eru teknar seint eða alls ekki. Ég tel að fyrir áhorfendur Ríkissjónvarpsins sé nokkuð augljóst að það er að tapa samkeppninni við Stöð 2. Það er ekki vegna þess að starfsmenn RÚV hafi ekki áhuga heldur fær það frumkvæði og kraftur sem í fólkinu býr ekki notið sín í stöðnuðu og niðurnjörvuðu kerfi ríkisrekstrarins. Ég tel því að til að efla og styrkja þetta óskabarn þjóðarinnar verði að bjarga því úr þessum fjötrum og veita því frelsi sem allur nútímarekstur þarf nauðsynlega á að halda ef hann á að þrífast í samkeppni sem hefur engin landamæri lengur.

Herra forseti. Mín skoðun er sú að leggja beri niður útvarpsráð sem er bastarður í þessum rekstri og færa reksturinn yfir í hlutafélagaformið. Því fyrr sem það gerist því betra. Skipa þarf stjórn yfir reksturinn þar sem útvarpsstjóri væri forstjórinn. Það er nægjanleg breyting að mínu áliti til að byrja með. Sú regla að skylda heimili til áskriftar að RÚV hlyti að verða næsta vers. Þess vegna spyr ég hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurninga:

,,1. Eru uppi hugmyndir í ráðuneytinu um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag?

2. Hafa einhverjar aðrar hugmyndir komið fram um breytingar á rekstrarformi þess og þá hverjar?``