Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:52:38 (743)

1999-10-20 13:52:38# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda spurninguna sem hann lagði fyrir hæstv. menntmrh. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og verð að segja að í svari hans sé nokkur dagskíma við sjóndeildarhringinn varðandi rekstur þessa ágæta ríkisfyrirtækis.

Ég er sammála honum í því að auðvitað verður að vera víðtæk almenn sátt um rekstur Ríkisútvarpsins. Svo er hins vegar ekki. Það er með ólíkindum hversu seint þau mál sem eru alger innanhússmál Ríkisútvarpsins berast til yfirmanna stofnunarinnar. Þeir vita ekki af því hvað er að gerast þar inni. Aðrir fjölmiðlar flytja fréttir af gangi mála innan Ríkisútvarpsins. Mórallinn innan þessa fyrirtækis er með slíkum ólíkindum að það eitt réttlætir að á þessum málum verði tekið og ég vona að hæstv. menntmrh. láti athöfn fylgja orðum þannig að þessari ágætu stofnun verði komið á viðunandi rekstrargrunn í því frjálsræði sem hér ríkir.