Endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:05:17 (751)

1999-10-20 14:05:17# 125. lþ. 13.5 fundur 34. mál: #A endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hvað veldur því að ekki hefur enn verið lagt fram frumvarp til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum þrátt fyrir skýlaus lagafyrirmæli um að endurskoðun laga nr. 63/1993 færi fram jafnhliða endurskoðun skipulags- og byggingarlaga sem lokið var með lagasetningu vorið 1997?``

Því er til að svara að við endurskoðun skipulags- og byggingarlaga sem leiddi til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem öðluðust gildi 1. janúar 1998 var horfið frá því að endurskoða lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, samtímis. Það byggðist á því áliti, eins og fram kom í frv. til skipulags- og byggingarlaga, að lítil reynsla væri komin á framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum sem tóku gildi 1. maí 1994 og því væri ótímabært að endurskoða þau. Því er ljóst að þegar hefur verið gerð grein fyrir því á Alþingi, eins og áður segir, af hverju skipulags- og byggingarlög og lög um mat á umhverfisáhrifum voru ekki endurskoðuð samtímis og felld saman. Engar athugasemdir komu fram við þetta við meðferð skipulags- og byggingarlaga, hvorki í almennum umræðum né frá umhverfisnefndinni.

Þann 30. október 1997 skipaði Guðmundur Bjarnason, þáv. umhvrh., nefnd sem fengið var það hlutverk að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, með síðari breytingum í ljósi fenginnar reynslu liðinna ára og nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 97/11, um breytingu á tilskipun 85/337. Nefndin skilaði tillögum sínum í formi endurskoðaðra laga með bréfi dagsettu 10. desember 1998.

Frv. það sem unnið var á vegum stjórnskipaðrar nefndar og áður er nefnt var lagt fyrir ríkisstjórn með nokkrum breytingum stuttu fyrir þinglok á næstsíðasta löggjafarþingi en ekki vannst tími til að leggja það fyrir Alþingi þar sem þingið var óvenju stutt vegna alþingiskosninga. Frv. hefur verið til umfjöllunar í ráðuneytinu og hefur ráðuneytið í sumar og haust leitað umsagna þeirra aðila sem sérstaklega eru undir lögin settir með það fyrir augum að reyna að einfalda matsferli og stjórnsýslu á þessu sviði. Síðustu umsagna er að vænta á næstu dögum.

2. liður spurningarinnar hljóðar svona:

,,Hvenær hyggst ráðherra leggja frv. fram og hvenær er áætlað að lögin öðlist gildi?``

Því er til að svara að reiknað er með því að frv. verði lagt fram á næstu vikum þegar unnið hefur verið úr umsögnum sem borist hafa ráðuneytinu. Á þessari stundu er erfitt að áætla hvenær nýju lögin taka gildi. Það fer að sjálfsögðu eftir vinnunni hér á hinu háa Alþingi.

Varðandi þriðju spurninguna er því til að svara að það er misskilningur að Ísland hafi þurft að lögfesta í síðasta lagi 15. mars umrædda tilskipun Evrópusambandsins, heldur öðlaðist tilskipunin gildi 15. mars sl. í Evrópusambandslöndunum. Þótt Ísland hafi áður ákveðið að lögtaka ákvæði umræddrar tilskipunar þurfti áður en til löggildingar kæmi að taka málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni. Það var gert 28. febrúar sl. og ber þá EES-löndunum í framhaldinu að lögleiða tilskipunina innan sex mánaða. Samkvæmt þeim reglum hefði það því átt að gerast fyrir lok ágústmánaðar. Talsmenn Eftirlitsstofnunar EFTA funduðu með fulltrúum umhvrn. 16. júní sl. og var þeim gerð grein fyrir því að þar sem þinghald stæði ekki á Íslandi yfir sumarmánuðina væri útséð um að tækist að lögleiða tilskipunina fyrir lok ágústmánaðar en frv. yrði lagt fram í haust. Þeir gerðu ekki athugasemdir við það.

Það er mjög langt mál að gera nákvæma grein fyrir þýðingu ákvæða tilskipunarinnar fyrir stöðu og framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum hér á landi. Hins vegar er ljóst að þær breytingar sem þar koma fram eru í frv. sem verður lagt fram innan nokkurra vikna, enda er markmið frv. m.a. að uppfylla þær skyldur sem íslenska ríkið tók á sig með EES-samningnum. Sem dæmi um breytingar má nefna að ráðherra er veitt heimild, þegar fleiri en ein framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði, til að meta umhverfisáhrif þeirra sameiginlega. Ráðherra er einnig heimilt að undanskilja ákveðnar framkvæmdir á ákvæðum laganna að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Í stað 6. gr. núverandi laga, sem veitir ráðherra heimild til þess að ákveða að tilteknar framkvæmdir fari í mat þó ekki séu þær taldar upp í 5. gr. laganna, er lagt til að II. viðauki tilskipunarinnar verði lögleiddur. Samkvæmt honum ber að tilkynna um allar framkvæmdir sem undir listann falla. Það er síðan ákvörðun Skipulagsstofnunar hvort framkvæmdin skuli háð mati en ekki ráðherra eins og nú. Þetta eru einungis fá dæmi um það sem er í væntanlegu frv.