Að bera af sér sakir

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:31:53 (786)

1999-10-20 15:31:53# 125. lþ. 13.97 fundur 89#B að bera af sér sakir# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég neyðist til þess að biðja um orðið undir þessum dagskrárlið vegna þess að mig greinir augljóslega á við hæstv. forseta um hvernig túlka beri þingsköp varðandi þennan lið sem með skýrum hætti er mælt fyrir um í þingsköpum en þingmenn hafa rétt til að biðja um orðið og bera af sér sakir ef þeir telja þær ranglega á sig bornar. Ég er ekki vanur því og er ekki kunnugt um að til siðs hafi verið að takmarka þennan rétt eða skilyrða, t.d. þannig að hann skyldi falla innan hálftíma ræðutíma sem leyfður væri í utandagskárumræðu. Þetta er sjálfstæður réttur þingmanna og hugsaður til þess að þeir eigi úrræði til að verja hendur sínar ef þeim finnst ranglega að þeim veist. Ég hafði reyndar ætlað mér að nota þetta tækifæri einnig til þess að biðjast afsökunar á mismæli sem mér varð á. Ég nefndi ranglega þann utanrrh. sem var við völd á þessum tíma. Ég hafði reiknað með því að leyfast mundi að leiðrétta það mismæli, það var sem sagt Guðmundur Í. Guðmundsson en ekki Emil Jónsson, eins og mér mun hafa orðið á að segja. Hitt sem ég ætlaði að leiðrétta var að það fólst ekkert í orðum mínum sem leyfilegt er að túlka eins og hæstv. forsrh. gerði, að ég væri að bera lygar upp á nafngreinda íslenska ráðamenn. Það er fráleitt þó að ég hafi vísað til Danmerkur. Nú hef ég komið þessu að, herra forseti, og þakka kærlega fyrir.