Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:36:39 (801)

1999-10-21 10:36:39# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að þessir atburðir verða til þess að þrýsta enn frekar á um að Alþingi hraði vinnu sinni við þessi mál og að þau komi hér til efnislegrar og endanlegrar afgreiðslu. Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í þessum efnum væri alveg forkastanlegt að tillaga um að koma þessu máli út úr heiminum, í þeim skilningi að Alþingi taki af skarið í málinu og þar með félli kæran sjálfkrafa niður sem hér var vitnað til, lægi hér og fengi ekki efnislega afgreiðslu. Það væri óþinglegt og ólýðræðislegt.

Ég tek undir óskir um það að hv. umhvn. sem hefur tillöguna til skoðunar --- það ætti væntanlega ekki að vera neitt að vanbúnaði að hún hlyti afgreiðslu á allra næstu vikum í ljósi þess að tillagan hefur áður verið flutt og umsagnir liggja fyrir --- hraði störfum þannig að Alþingi gefist kostur á því að taka málið á dagskrá á nýjan leik og til afgreiðslu.

Herra forseti. Auk þess leyfi ég mér undir liðnum um störf þingsins að vekja athygli forseta á því að enginn hæstv. ráðherra er viðstaddur þingfundinn. Það er spurning hvort það sé það sem eigi að bjóða þingmönnum upp á svona að staðaldri jafnvel, þ.e. að hæstv. ríkisstjórn sé með öllu fjarverandi þegar hér hefst þingfundur á reglulegum fundartíma á virkum degi í þingviku. (HBl: Það eru kannski þeim mun fleiri forsetar.) Það er nóg af forsetum. Hér eru alls konar mektarmenn og fyrrv. ráðherrar og ekki skal lasta það. En svo á að heita að við höfum ríkisstjórn í landinu um þessar mundir og mér finnst satt best að segja, herra forseti, varla við hæfi að hefja þingfund við þær aðstæður að enginn hæstv. ráðherra sé viðstaddur. Ég vil leyfa mér að spyrja: Er einhver þeirra í húsi? Mér er skapi næst að fara fram á að þingfundinum verði frestað ef svo er ekki, a.m.k. þangað til eins og eitt eintak, eitt stykki hæstv. ráðherra er komið í húsið. (Gripið fram í: Þeir eru hér.) Það er nú svo, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir --- það er ágætt fyrir hv. þm. miðað (Forseti hringir.) við sögusagnir að fara að átta sig á því --- að ráðherrar eiga að gegna þingskyldum eins og aðrir þingmenn.