Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:05:51 (870)

1999-10-21 15:05:51# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft löggjöf um samkeppnismál, með því frv. sem hér liggur fyrir. Eins og við var að búast hafa þær umræður sem hv. þm. Samfylkingarinnar hafa staðið fyrir verið einlitar og ekki margt nýtt komið fram. Það kemur auðvitað ekki á óvart.

Það sem hér er til umræðu, sem auðvitað er mjög mikilsvert í þjóðfélagi okkar, er hvort Samkeppnisstofnun, eins og hún hefur verið rekin, hafi tryggt eðlilega samkeppni hér á landi, hvort vinnubrögð hennar hafi verið eðlileg og í þriðja lagi hvort Samkeppnisstofnun hefur með afskiptum sínum e.t.v. staðið í vegi fyrir framþróun, komið í veg fyrir að við Íslendingar stöndum jafnframarlega t.d. í fjarskiptum og ella mundi. Kunna bein afskipti Samkeppnisstofnunar e.t.v. að hafa valdið því að við búum nú við þá fákeppni t.d. í fjölmiðlarekstri að óþolandi er?

Þegar ég fór að lesa yfir frv. þingmanna Samfylkingarinnar festi ég mig við 3. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð. Slík misnotkun getur einkum falist í því að:

a. beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir,

b. settar séu takmarkanir á framleiðslu, markað eða tækniþróun, neytendum til tjóns,

c. öðrum viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt,

d. sett sé það skilyrði fyrir samningsgerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.``

Þetta er auðvitað mjög flókin efnisleg grein sem nær ógjörningur er að átta sig á nema eftir langa yfirlegu. Ég þykist vita að flutningsmenn þessa frv. hafi athugað þau mál til hlítar. Á hinn bóginn liggur nú fyrir að fákeppni í ýmsu greinum í þjóðfélaginu er að verða meira áberandi en áður hefur verið. Því veldur margt og t.d. sú skoðun Samkeppnisstofnunar að rétt sé að fyrirtæki veiti markaðsráðandi eða öflugum fyrirtækjum meiri afslátt en minni fyrirtækjum. Þannig að magnafsláttur sé skuldbindandi þegar um mikil fyrirtæki er að ræða eins og dæmi eru til um í úrskurðum Samkeppnisstofnunar.

Nú vitum við, ef við t.d. veltum fyrir okkar byggingariðnaði, að þróunin hefur verið sú að þar hafa tvö mikil fyrirtæki, vel rekin fyrirtæki, verið að hasla sér völl svo að segja má að ógjörningur sé að standa undir rekstri annarra sambærilegra fyrirtækja. Það voru m.a. ástæðurnar fyrir því að byggingarvörudeild KEA á Akureyri eða eigendur þess fyrirtækis treystu sér ekki til að halda þeim rekstri áfram. Flutningskostnaður til landsins, ýmsir afslættir, hagnaður við magninnkaup og annað þvílíkt kom til sögunnar og olli því að ógjörningur er að hafa þriðja fyrirtækið hér á landi í þessum rekstri. Við getum bent á fleiri dæmi þessu lík.

Í frv. stendur:

,,Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð.``

Þessu eiga fyrirtækin sjálf að gera sér grein fyrir fyrir fram án þess að úrskurður falli. Þá vil ég spyrja hv. 1. flm. Lúðvík Bergvinsson: Telur hv. þm. að BYKO og Húsasmiðjan séu markaðsráðandi fyrirtæki samkvæmt þessari grein? Þetta er bein efnisleg spurning. Ég efast ekki um að flm. hafi velt þessu sérstaka tilviki fyrir sér áður en þeir lögðu þetta frv. fram vegna þess að það er einmitt á þessu sviði verslunarrekstrar sem mestar breytingar hafa orðið á markaðsráðandi stöðu nú á liðnum missirum.

Komi á hinn bóginn í ljós að hv. þm. sé ekki reiðubúinn til að svara þessari spurningu --- sem ég á ekki von á --- upplýsir það um þau vinnubrögð sem liggja til grundvallar textanum í þessu frv.

Þá vil ég í annan stað varpa þeirri spurningu til hv. flm. sem kynnt hefur sér samkeppnismál mjög rækilega --- auðvitað eftir sinni getu --- hvað hann segi um að samkeppnisráð felli úrskurð sem embættismenn Samkeppnisstofnunar draga til baka, án þess að um úrskurðinn sé fjallað í samkeppnisráði. Telur hv. þm. heimilt að standa þannig að verki?

Með þessari spurningu minni er ég auðvitað kominn inn á það svið hvort embættismenn Samkeppnisstofnunar, eins og þeir hafa unnið og talað, hafi sett sig í þá stöðu að mjög örðugt og kannski ómögulegt sé að bera til þeirra það traust sem menn verða að bera til stofnunar sem er ráðandi á viðskiptasviðinu. Ég hef haldið því fram að umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, hafi verið mjög til fyrirmyndar þegar hann gekk svo frá sínum úrskurðum að láta öðrum eftir að túlka þá. Hann þurfti ekki að leggja orð í belg síðar meir þó úrskurðirnir kæmu til umræðu á opinberum vettvangi, hvort sem var í blöðum eða útvarpi.

Embættismenn Samkeppnisstofnunar hafa annan hátt á. Þeir eru sítalandi um hvað þeim finnist um eitt og annað. Þó liggur fyrir að hlutverk þeirra er ekki að fella úrskurði heldur að vera óhlutdrægir embættismenn. Þeir eiga að undirbúa mál fyrir samkeppnisráð. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að ýmis þau ummæli sem hafa fallið í hita leiksins af þessum sökum valdi því að innan Samkeppnisstofnunar séu embættismenn sem vegna fyrri afskipta af fyrirtækjum eða málefnum séu vanhæfir til að halda áfram að fjalla um slík mál innan stofnunarinnar og vinna að undirbúningi þeirra fyrir samkeppnisráð.

Nú þætti mér fróðlegt að vita hvað hv. flm. segir um þessa skoðun mína. Eins og ég sagði hefur sennilega enginn alþingismaður oftar minnst á ágæti Samkeppnisstofnunar í þessum sölum en hann. Ég þykist því vita að hann hafi glögglega íhugað þessi mál áður en hann lagði þetta frv. fram.

[15:15]

Þá vil ég líka velta því upp hvernig háttað sé tengslum afrýjunarnefndar samkeppnismála við embættismenn Samkeppnisstofnunar og hvernig háttað sé undirbúningi mála hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Það vakti athygli mína þegar einn af hv. þm. Samfylkingarinnar, hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, vék að því að Samkeppnisstofnun hefði amast við hádegisflugi til Egilsstaða. Ég man ekki nákvæmlega það sem hann sagði en eitthvað var það á þá leið, með leyfi hæstv. forseta, að kjarni málsins væri sá að það eigi að líta á flug til Egilsstaða til lengri tíma litið, og reyna að bregðast við því að eitt fyrirtæki verði of markaðsráðandi með því að dumpa verði. Eitthvað í þessa veru voru ummæli hv. þm. og mér heyrðist hann vera hræddur um að ef Flugfélag Íslands flygi til Egilsstaða í hádeginu þá gæti það til lengri tíma valdið erfiðleikum í sambandi við samkeppnisstöðu flugfélaganna á þessari flugleið.

Nú er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög alvarlegt ef Samkeppnisstofnun fettir fingur út í það að samgöngur séu bættar á einstaka stað. Á Austurlandi t.d. er fjöldi fyrirtækja að byggja sig upp í ferðaþjónustu. Ég hef vakið athygli á því oftar en einu sinni opinberlega að afskipti af þessu tagi kunni að skaða þau fyrirtæki á Austurlandi sem hafa verið að fjárfesta í ferðaþjónustu, hafa verulegan fastan og breytilegan kostnað í þeirri atvinnugrein, ég tala nú ekki um yfir veturinn þegar ferðamönnum fækkar og nýting á hótelherbergjum er mjög lítil og kannski engin um lengri tíma. Fyrir þessi fyrirtæki er mikilsvert að sem flestir komi að því að beina straumi ferðamanna til Austurlands. Og hvernig í ósköpunum getum við horft á hagsmuni þessa fólks í því samhengi að það eigi að setja skorður við því að menn geti komið fólkinu austur? Það er ógjörningur að koma því inn í minn þrjóska haus að það efli ferðaþjónustu á Austurlandi að amast við umsvifum Flugfélags Íslands á Egilsstaðaflugvelli.

Ef mínar ályktanir eru réttar þá hefur þessi niðurstaða Samkeppnisstofnunar beinlínis skaðað fjárhagslega fyrirtæki á Austurlandi í ferðaþjónustu og verslunareigendur í þeim fjórðungi. Ég hefði gaman af því að vita hvað hv. flutningsmenn hafa um þetta að segja.

Þingmenn og fulltrúar Samfylkingarinnar hafa löngum haft mikinn áhuga á símanum. Meðan ég var í ríkisstjórn með Alþfl. var það þó ekki svo að þingmenn eða ráðherrar Alþfl. hefðu áhuga á því að brjóta niður einokun símans með því að greiða fyrir því og ljá því jáyrði sitt að símanum yrði breytt í einkafyrirtæki, síður en svo. Þvert á móti var það sérstakt kosningamál Alþfl. fyrir kosningarnar 1995 að síminn yrði áfram opinber stofnun. Þau skilaboð flutti hv. 7. þm. Reykv. Össur Skarphéðinsson, þá ráðherra, inn á fund sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna áttu með starfsmönnum símans til þess að undirstrika þá afstöðu Alþfl. að undir engum kringumstæðum mætti hrófla við því að síminn væri áfram opinber stofnun. Undir það tók hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Mér var afstaða hennar áður kunn meðan hún sat í ríkisstjórn fyrir Alþfl. Á þessum tíma hafði hún að vísu stofnað nýjan flokk en hún staðfesti á þessum fundi að ummæli Össurar Skarphéðinssonar væru í samræmi við flokkssamþykktir Alþfl.

Það liggur því algjörlega ljóst fyrir að Alþfl. ber ábyrgð á því að ekki var búið að einkavæða símann fyrir miðjan þennan áratug. Þegar þeir þess vegna nú eru að tala um það að við í Sjálfstfl. stöndum ekki undir því að vera boðberar frjálsra viðskipta þá eru þeir auðvitað eins og endranær að reyna að tileinka sér annarra sjónarmið með því að þykjast sjálfir hafa fundið þau upp, og gera lítið úr þeim sem þeir þó hafa lært mikið af.

Að síðustu ætla ég aðeins að víkja að því að ég er þeirrar skoðunar að með afskiptum sínum af Landssímanum hafi Samkeppnisstofnun komið í veg fyrir þróun í fjarskiptum, þ.e. með undarlegum úrskurðum sem Samkeppnisstofnun hefur fellt varðandi ljósleiðarann og breiðbandið. Og það ömurlega í þeim úrskurði sem ég hef helst í huga nú er að þar var öllu ruglað saman og greinilegt að sá sem samdi þann úrskurð gerði sér ekki grein fyrir hinum tæknilegu heitum á ýmsum atriðum í fjarskiptaþjónustu og búnaði í fjarskiptum.

Afleiðingin af þessu er sú að of fáir Íslendingar eiga kost á því að nýta sér breiðbandið. Ljósleiðarinn liggur í of fáar íbúðir hér á landi. Notendur eru of fáir. Það viðheldur á hinn bóginn þeirri fákeppniseinokun sem hér er í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2. Og líka vegna þess að ég veit að hv. þm. vitnar mjög gjarnan í skoðanir og reglur Evrópusambandsins í þessu sambandi þá getum við rifjað það upp saman að á þessum markaði er það skoðun þeirra í Brussel að ekki sé hægt að tala um samkeppni nema aðilar séu a.m.k. þrír. Þess vegna getum við alls ekki huggað okkur við það að samkeppni sé í sjóvarpsrekstri hér á landi samkvæmt þeim skilgreiningum sem þar er um getið. Það getum við ekki. Þar er greinilega um markaðsráðandi stöðu að ræða. Í 3. gr. frv. hv. þm. stendur, með leyfi forseta:

,,Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu er bönnuð.``

Ætlar hv. þm. að halda því fram við mig að hvorki Stöð 2 né Ríkissjónvarpið hafi misnotað sína markaðsráðandi stöðu? Ætlar hann að halda því fram? Ef hann samþykkir að þetta fyrirtæki og þessi stofnun hafi gert það, hvað þýðir þá 3. gr. frv. í því samhengi?