Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:30:37 (875)

1999-10-21 15:30:37# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég átti orðastað við hv. þm. Halldór Blöndal í andsvari rétt áðan vegna þess að hann fór mikinn í ræðu sinni um þessi mál. Hann spurði ýmissa spurninga og drap á ýmis atriði. Ég átti von á því og vænti þess að við gætum átt orðastað um þau atriði en svo virðist ekki vera.

Ég vil fara örfáum orðum um þau atriði í ræðu hans þar sem hann staldraði við Landssímann. Auðvitað er ekki að undra að áhugi hans liggi nærri því stórfyrirtæki enda hv. þm. fyrrverandi hæstv. samgrh. um átta ára skeið og áttum við, ég og hv. þm., samstarf í ríkisstjórninni 1991--1995 um þau mál og önnur. Landssímamálið er auðvitað fyrst og síðast þess eðlis, sem er auðvitað grundvallaratriði í pólitík, að það gildir einu hvort við erum að tala um ríkiseinokun eða einkaeinokun. Ég vil taka undir orð sem féllu fyrr í þessari umræðu. Þessi einokunarstarfsemi er jafnslæm hvort heldur er í höndum ríkisins í samkeppnisumhverfi eða einkaaðila. Einkaaðilaeinokunin er sennilega mun verri því að ríkiseinokunin er þó háð hinu lýðræðislega valdi, þ.e. að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafa þó einhver tök á því að sýna stjórnendum þeirra fyrirtækja tiltekið aðhald. Að vísu er leiðin stundum löng en hún er til staðar samkvæmt valdamynstrinu. Hins vegar er það stundum óframkvæmanlegt þegar um einkaeinokun er að ræða sem menn reka í skjóli embættisvalds stundum, í skjóli framkvæmdarvaldsins stundum og stundum ná ekki lög til þess. Um það snýst það mál sem við erum að ræða hér.

Varðandi Landssímann vil ég undirstrika enn og aftur --- ég kom mjög rækilega inn á það á seinni hluta síðasta kjötímabils þegar hlutafélagavæðing þess fyrirtækis stóð fyrir dyrum og var afgreidd í þinginu --- að á þeim tíma sagði þáv. hæstv. samgrh. ítrekað og undir það var tekið af öllum stjórnarliðum að ekki væri uppi á borðum að selja það fyrirtæki, hvorki í einu lagi né mörgum bútum. Því var haldið fram að ekki væru uppi áform um að selja Landssímann. Það var áréttað í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 1999. Það sem hefur hins vegar gerst í kjölfarið er að þær yfirlýsingar hafa verið dregnar til baka. Menn hafa kúvent. Nú á að selja allt laust og fast. Þetta er kannski ekki kjarni þessa máls en ég vildi hins vegar halda þessu til haga í umræðum um þetta því að hv. þm. tók að rifja upp fyrri tíð og afstöðu manna til Landssímans. Þá er rétt að halda því til haga og rifja upp hverjar yfirlýsingar sjálfstæðismanna voru þegar kom að hlutafélagavæðingu Landssímans. Þá var einkavæðing og sala fyrirtækisins ekki ráðgerð. Nú kveður við annan tón.

Ég hef ævinlega verið vinur Landssímans. Ég hafði miklar áhyggjur af því hvað yrði um rétt og starfsöryggi þess fólks sem þar vann. Ég spáði þá að lítið væri að marka þessar yfirlýsingar um að Landssíminn yrði ekki einkavæddur. Þetta væri hefðubundinn ferill, fyrst færi fram hlutafélagavæðing, laun toppanna yrðu hækkuð, fækkað á gólfinu og síðan yrði selt. Akkúrat þetta er að gerast og hefur gerst á örskömmum tíma, það hafa þingskjöl og fyrirspurnir þingmanna leitt í ljós. Laun toppanna voru hækkuð en fækkað á gólfinu.

Það sem meira er, auðvitað eins og venja er til, er að það hefur verið raðað á jötuna. Þar hafa verið kallaðir til verka og æðstu embætta þeir menn sem teljast hliðhollir Sjálfstfl., nú síðast forstjóraráðningin þar á bæ. Hann er vafalaust prýðilegur maður, hæfur til margra hluta og kannski þessara en ég er þess fullviss að það hefur ekki þvælst mikið fyrir honum við þá ráðningu að vera í réttum flokki og réttum megin við hið pólitíska strik. Það hefur kannski verið hvað veigamest.

Varðandi Landssímann og samgöngugeirann þá er til lengri tíma litið verið að treysta samkeppnina. Það gengur auðvitað ekki að taka einstök atriði út úr og gera þau tortryggileg þegar menn hafa ekki heildarmyndina. Það reyndi hv. þm. að gera með umræðunni um Egilsstaðahádegisflug. Ég er búinn að svara því. Nákvæmlega það sama á við um allar þær litlu athugasemdir varðandi framgang yfirmanna Pósts og síma. GSM-símaþjónustan er að ná flugi í raunverulegri samkeppni og ég vona svo sannarlega að hún nái því enn frekar.

Ég hef aldrei dregið dul á að á þessum markaði, á fjármálamarkaði, tel ég brýnt að fá nýtt blóð, inn í það samkeppnisumhverfi. Þá er ég að tala um erlenda aðila í miklu ríkari mæli. Ég óttast þá ekki í þessu samhengi. Kjarni málsins er sá að fráfarandi hæstv. samgrh. lenti aftur og aftur í þeim fúla pytti að hengja boðbera válegra tíðinda. Í þessu tilfelli var það Samkeppnisstofnun. Hann lét býsna stór orð falla áðan þar sem hann lét að því liggja, orðaði það reyndar svo, að starfsmenn og embættismenn Samkeppnisstofnunar væru vanhæfir vegna þess að þeir hefðu komið að máli á fyrri stigum, hefðu lent í deilum við Landssímann um tiltekin atriði. Það að þeir voru ekki sammála Landssímanum gerir að hans mati það að verkum að þeir megi ekki koma að rannsókn á öðrum atriðum í rekstri Landssímans.

Við verðum náttúrlega að glöggva okkur á því að þessir starfsmenn Samkeppnisstofnunar vinna samkvæmt lögum. Auðvitað er ekkert í lögum sem kveður á um að þeir megi eingöngu koma einu sinni að athugunum gagnvart tiltekinni stofnun.

Það er hins vegar athyglisvert í þessu samhengi, af því ég veit að hv. þm. hefur áhuga á þessum eftirlitsiðnaði, að skoða aðra stofnun sem heyrir beint undir hið háa Alþingi og heitir Ríkisendurskoðun. Þar er ríkisendurskoðandi, æðsti embættismaður þeirrar stofnunar, með talsvert sjálfdæmi og er því sem næst ,,dómstóll`` í ýmsum úrskurðum. Hann lét sig hafa það að vera skipaður, herra forseti, í starfshóp samgrh. sem hafði það verkefni að svara annarri eftirlitsstofnun sem heitir Samkeppnisstofnun ríkisins og skilaði af sér fyrir skömmu. Hvers konar stjórnsýsla er þar á ferð? Það væri fróðlegt að heyra áhugamann um íslenska stjórnsýslu, samkeppnisiðnað og eftirlitsstofnanir hins íslenska ríkis fara nokkrum orðum um þau öfugmæli sem er að finna í slíkum framgangsmáta.

Þetta vil ég að lyktum segja, herra forseti. Auðvitað mætti margt um málið segja annað en nóg er sagt í bili.