Tæknibúnaður lögreglunnar á landsbyggðinni

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:20:51 (910)

1999-11-01 15:20:51# 125. lþ. 16.1 fundur 96#B tæknibúnaður lögreglunnar á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. dómsmrh.

Fíkniefnadeild lögreglunnar hefur staðið sig vel í að uppljóstra og koma höndum yfir umtalsvert magn af ólöglegum fíkniefnum á undanförnum missirum. Ber að fagna þessum árangri lögreglunnar sérstaklega. Fíkniefnaneytendur og fíkniefnasalar leita í auknum mæli skjóls í sveitarfélögunum úti á landsbyggðinni.

Í haust gerðist það að vopnaðir menn réðust í hús eitt í sveitarfélagi á landsbyggðinni til þess að innheimta fíkniefnaskuld og notuðu þeir til þess m.a. afsagaða haglabyssu. Lögreglan í viðkomandi umdæmi hafði engin tæki eða tól til þess að bregðast við þessari uppákomu þannig að leita varð til sérsveitar lögreglunnar í Reykjavík. Hins vegar voru tveir ungir sérsveitarmenn í lögregluliði umdæmisins sem höfðu notið menntunar á þessum sviðum. En lögregluembættinu hafði ekki tekist að fá viðbúnað sem þarf fyrir sérsveitarmenn. Búið var að leggja ærinn kostnað í menntun þessara manna.

Hver er stefna dómsmrn. í málum sem þessum? Er von til þess að lögregluembætti úti á landsbyggðinni þar sem sérsveitarmenn hafa verið þjálfaðir og starfa fái búnað sem þarf?

Mér er sagt að hér sé ekki um verulegan kostnað að ræða. Ef ekki tekst að fá viðeigandi búnað er mjög hætt við því að þessir ungu, vösku lögreglumenn flytji til höfuðborgarinnar. Ég beini þessari fyrirpurn minni til hæstv. dómsmrh.