Notkun nagladekkja

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:34:31 (919)

1999-11-01 15:34:31# 125. lþ. 16.1 fundur 98#B notkun nagladekkja# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrirspurnina sem er athyglisverð. Því er til að svara að ég hef ekki undirbúið neinar sérstakar breytingar á reglum um notkun nagladekkja eða að flutt verði frv. sem feli í sér kvaðir eða það að létta á þessum reglum sem snúast að sjálfsögðu um umferðaröryggi.

Það er alveg ljóst að deildar meiningar eru um hvort naglarnir komi að nægjanlegu gagni en gerð hefur verið tilraun til að þróa nagladekk auk þess sem á markaðinn hafa komið svokölluð harðkornadekk.

Ég get ekki á þessari stundu svarað því hvaða leið eigi að fara. Ég tel alveg nauðsynlegt að menn þrói þessa framleiðslu, en ég vil bara undirstrika að góður dekkjabúnaður bifreiða er afskaplega mikilvægur, ekki bara þegar um er að ræða hálku heldur einnig allan ársins hring skiptir miklu máli að ökumenn gæti að dekkjabúnaðinum. Fyrir okkur Íslendinga er óumflýjanlegt að velja þann kost sem skapar mest öryggi og það hefur verið niðurstaða manna að það væri með nagladekkjum. Þess vegna held ég að á þessu stigi sé ekki ástæða til að hvetja menn til að draga úr notkun þeirra þar sem slíkar aðstæður eru. Við þekkjum það, sem ferðumst um landið allt, að þíðviðri getur verið syðra en síðan lendum við í vandræðum á fjallvegunum úti um landið og þess vegna þurfum við að búa ökutækin sem best og hafa öryggið í fyrirrúmi.