Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:19:28 (955)

1999-11-02 15:19:28# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill stundum að hlutirnir séu einfaldari en þeir eru. Ég hef aldrei orðað það svo að þessar viðræður séu, eins og hann orðaði það, í plati. Ég hef hins vegar tekið það mjög skýrt fram að í opnun á þessum viðræðum sé ekki fólgin sú yfirlýsing að þessi lönd eigi mikla möguleika á að komast inn heldur sé fyrst og fremst verið að koma til móts við miklar væntingar og mikil vonbrigði þessara þjóða um að fá ekki einu sinni að komast í viðræður við ESB. Ég held hins vegar ekki að þessi yfirlýsing sé líkleg til þess að flýta aðild þessara ríkja. Og ég tek það fram að ég tel að þessar viðræður breyti engu um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og þar er ég sammála sendiherra ESB, Maddison, sem metur það nákvæmlega eins. Það breytir bókstaflega engu um möguleika Íslands á því að komast inn í ESB né heldur einu sinni um tímasetningu á slíkum möguleika.