Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:20:43 (956)

1999-11-02 15:20:43# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ræða þín skal vera já, já og nei, nei. Það má vel vera að ég sé að reyna að einfalda hlutina í viðræðum mínum við hv. þm. en ég er að reyna að skilja hvað hann er að segja.

Hv. þm. gekk fram fyrir skjöldu sem eini talsmaður sjálfstæðismanna þegar hæstv. utanrrh. sagði í fjölmiðlum á dögunum að þessi tíðindi um þetta boð Evrópusambandsins gerði það að verkum að komin væri upp ný staða í málinu sem þyrfti að bregðast við og hæstv. utanrrh. gerði það fyrir sitt leyti með því að efna til þessarar skýrslu sem ég fagna.

Ég hef hvergi í þeim textum sem ég hef lesið um þessa ákvörðun Evrópusambandsins, hvorki á Íslandi né annars staðar, séð þessa fráleitu túlkun hv. formanns utanrmn. og ég held því auðvitað fram að þetta sé bara veikburða og vængstífð tilraun hv. þm. fyrir hönd Sjálfstfl. að sýna fram á það að hann hefur ekki steytt á skeri í þessari umræðu sem hann hefur auðvitað gert.

Það má auðvitað segja að það hafi verið skrýtið að hv. þm., sem er formaður utanrmn., skyldi á þennan hátt beita sér gegn því sem hæstv. utanrrh. sagði af þessu tilefni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé enginn fótur fyrir þessu og í öllum sínum einfaldleika er hv. þm. í raun að halda því fram að hann hafi eitthvert sérstakt samband við þau æðri máttarvöld sem ráða fyrir Evrópusambandinu og viti þess vegna að það sé ekkert að marka þetta tilboð, það sé bara gert til að lægja öldur sem enginn hefur orðið var við nema hv. þm.

Ég vona hins vegar að hv. þm. hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að þessi breytta staða hafi ekki áhrif á möguleika okkar til að ganga inn í Evrópusambandið, en ég óttast að svo sé ekki. Ég óttast að þeir eintrjáningar sem ráða fyrir stefnu Sjálfstfl. í utanríkismálum hafi einmitt með stefnu sinni í þessum málum skert verulega stöðu Íslands í mögulegum viðræðum við Evrópusambandið í náinni eða fjarlægari framtíð. Það óttast ég. En ég skil út af fyrir sig og hef samúð með hv. þm., að hann er að reyna að drepa þeirri ábyrgð á dreif.