Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:33:46 (992)

1999-11-02 17:33:46# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:33]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að munnhöggvast við hv. þm. um þessi mál. Það sem ég var að reyna að benda á í máli mínu voru fyrst og fremst ákveðnar öfgar í þessu sambandi. Það eru ákveðnar öfgar í þessu sambandi. Það eru líka, við vitum það vel, ákveðin peningaöfl sem berjast í nafni umhverfisverndar en ég spyr mig hver sú umhvefisvernd er. Ég nefndi t.d. Keikó. Að ímynda sér hve ótrúlega miklum peningum var varið í það að flytja Keikó hingað til lands. Það er erfitt að skynja hvaða öfl voru þar að baki. Hv. þm. má ekki misskilja mig svo að íslenskir svokallaðir umhverfissinnar, vegna þess að ég er einn þeirra, séu á mála hjá peningaöflunum. Ég er fyrst og fremst að benda á að menn þurfi að reyna að skynja þessar andstæður.

Það er ótrúlegt að ferðast um Grænland og sjá fólkið sem hefur haft lifibrauð sitt af því að drepa sel, selja skinn o.s.frv. Það er ótrúlegt að sjá þau áhrif þeirra ,,umhverfissinna`` sem barist hafa gegn því að almenningur noti skinn og aðra slíka vöru. Ég er fyrst og fremst að benda á öfgarnar í þessu. Ég er ekki að segja --- og ég veit að hv. þm. túlkar orð mín ekki þannig --- að umhverfissinnar hér í þinginu séu á mála hjá þessum öfgamönnum.