Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:52:33 (996)

1999-11-02 17:52:33# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu ræða hæstv. utanrrh. um utanríkismál. Hæstv. ráðherra nýtur virðingar og vinsældar í störfum sínum. Um það vorum við frædd áðan af hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni og hlutverk okkar er að ræða hver sé innstæðan að baki þessum vinsældum og þeirri virðingu sem ráðherrann nýtur og við vonum að sjálfsögðu að sé sem mest. En ég hef þó efasemdir og vil geta um nokkra þætti sem ég vil vekja máls á.

Hæstv. ráðherra kemur víða við í máli sínu. Hann fjallar um norrænt samstarf. Hann fjallar um Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann fjallar um þróunarstarf, Evrópumálin og hann fjallar um mannréttindamál. Hann segir réttilega, með leyfi forseta:

,,Við getum ekki setið aðgerðalaus hjá þegar stórfelldir glæpir á borð við fjöldamorð eru framdir.``

Undir þetta tek ég. En við sitjum hjá gagnvart þeim ógnaratburðum sem eiga sér nú stað í Tsjetsjeníu. Þar eru tugir þúsunda ef ekki hundruð þúsunda á vergangi. Fjöldi manns hefur látið lífið af völdum ofbeldisverka og árása rússneska hersins, ekki aðeins á hernaðarmannvirki heldur einnig byggð ból, samgöngustöðvar og híbýli manna.

Við sátum líka hjá gagnvart atburðunum í Sierra Leone í Afríku, mannskæðri borgarastyrjöld, og við höfum setið hjá gagnvart Afganistan þar sem helmingur þjóðarinnar sætir kúgun og fregnir hafa borist af aftökum á konum sem hafa leyft sér að beita sér í mannréttindabaráttu. Við höfum setið hjá gagnvart þjóðernishreinsunum í Kólumbíu í Suður-Ameríku og við höfum setið hjá árum saman og áratugum saman gagnvart Evrópuríkinu Tyrklandi sem beitir Kúrda ofsóknum, meinar þeim að tala sína tungu og hundeltir þá sem vilja berjast fyrir annarri skipan mála í því landi.

En það eru til undantekningar þar sem Íslendingar sitja ekki hjá. Íslendingar sitja ekki hjá gagnvart Írak. Íslendingar styðja þær árásir sem fara fram gagnvart Írak, ekki bara fyrir nokkrum árum í Flóastríði, heldur núna nánast í viku hverri, þar sitja Íslendingar ekki hjá. Íslendingar sátu ekki hjá í Kosovo. Þegar NATO tók ákvörðun um að láta til sín taka á Balkanskaga stóð ekki á Íslendingum. Reyndar var átakanlegt að fylgjast með því í fjölmiðlum þegar sagt var frá því í miklum fréttum að ráðamenn á borð við Clinton Bandaríkjaforseta eða utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Madeleine Albright, hefði gert svo lítið að hringja í ráðherrana okkar og gefið þeim klapp á kollinn fyrir stuðninginn.

Í Kosovo áttu sér stað hörmulegir atburðir. Þar var þjóðarbrot ofsótt og þar voru framin fjöldamorð. Á sínum tíma var talað um að 100 þúsund manns hefðu verið drepnir. Það var þegar stríðið var í hápunkti. Síðan drógu menn í land. Það voru Bretar sem gerðu það fyrst og töluðu um 10 þúsund. Í síðustu viku var talað um að um 2.000 Albanir hefðu verið myrtir. Það er 2.000 manns of mikið. Næstum því eins margir létust af völdum loftárása NATO. Þar er talið að 1.400 manns hafi fallið og þetta er 4.000 manns of mikið. Það sem verra er, þessir atburðir áttu sér stað að verulegu leyti eftir að loftárásir NATO hófust og afleiðingar þessa stríðs eru enn þá með okkur. Um 120 þúsund Kosovo-Albanir eru enn í flóttamannabúðum á þessu svæði en 200 þúsund Serbar hafa flúið Kosovo frá því að stríðinu lauk. Lítið er talað um þetta í fjölmiðlum enda er stríðinu lokið þar og í Stjórnarráði Íslands er því að sjálfsögðu löngu lokið.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fluttum till. til þál. til varnar þessu fólki þar sem við vildum að íslensk stjórnvöld beittu sér til varnar þeim sem ættu undir högg að sækja af völdum stríðsins. Við lögðum fram tillögur í þremur liðum og við bendum á það í ítarlegri greinargerð sem við birtum með tillögunum að það sé ekki aðeins mannfallið sem megi rekja til stríðsins heldur megi búast við viðvarandi mengun vatns- og votlendis af völdum þessa stríðs. Við bendum líka á, sem við erum ekkert ein um að benda á, heldur mannréttindasamtök og umhverfissamtök víðs vegar um heiminn hafa áréttað, að búast má við að afleiðingar stríðsins birtist okkur í hörmulegum myndum á komandi áratugum og er það t.d. rakið til þeirra vopna sem er beitt, svo kallaðra DU-vopna sem eru vopn með sneyddu úrani, sem kallað er, og veldur hvítblæði hjá börnum sem fæðast á þessum svæðum. Þetta er að gerast núna í Suður-Írak t.d. og menn óttast að hið sama kunni að vera uppi á teningnum á þessum slóðum.

[18:00]

En hvað viljum við þá gera? Ég sagði í upphafi að ég vildi ekki að við sætum aðgerðarlaus. Hvað viljum við gera? Við viljum efla Sameinuðu þjóðirnar, ekki bara einhvern veginn, ekki bara gagnrýnislaust heldur sem lýðræðislegt tæki þjóða heims til að leiða deilumál til lykta. Það er hægara sagt en gert. Ég veit það. Við erum búin að horfa upp á aðgerðarleysi heimsins gagnvart Austur-Tímor í aldarfjórðung og við erum búin að horfa upp á ofsóknir gegn Kúrdum í langan tíma án þess að alþjóðasamfélagið bregðist við eða fái rönd við reist.

Staðreyndin er sú að alþjóðasamfélagið er veikburða. Það er veikburða vegna þess að allt of mörg ríki láta hagsmuni nokkurra hernaðarvelda ráða í afstöðu sinni. Sú er afstaðan og það er þetta sem við gagnrýnum og þessu viljum við breyta.

Hæstv. utanrrh. víkur að þessu í sínu máli. Hann talar um nauðsyn þess að við komumst úr sporunum í þessu efni. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Niðurstaðan um íhlutunarrétt hins alþjóðlega samfélags á grundvelli mannréttinda og mannúðarlaga skiptir sköpum fyrir framtíð Sameinuðu þjóðanna sem bera aðalábyrgð á að tryggja heimsfrið og öryggi. Stofnunin þarf að laga sig að breyttu umhverfi og marka stefnu um það hvernig hún ætlar að taka á átökum þar sem óbreyttir borgarar njóta ekki verndar sinna eigin stjórnvalda en eru þess í stað ofsóttir og drepnir. Brýnt er að huga að hvernig hægt er að styrkja fyrirbyggjandi hlutverk samtakanna ...``

Þetta finnst mér gott, en hvernig? Telur hæstv. utanrrh. leiðina vera þá sem hann hefur farið, að hlíta forræði og skipunum frá Washington og innan úr herbúðum NATO? Ég held ekki. Ég vildi gjarnan heyra vangaveltur hæstv. ráðherra um þetta efni.

Hæstv. ráðherra kemur að þróunarsamvinnu og þróunarstarfinu. Hann víkur að því sem reyndar hefur verið í fréttum núna um skeið, ákvörðunum Alþjóðabankans um að gefa eftir skuldir gagnvart fátækustu ríkjum heimsins. Hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta, í sinni ræðu:

,,Afar brýnt er að gefa eftir skuldir fátækustu ríkja heims og átakið til þess (HIPC) var aðalumfjöllunarefni ársfundar Alþjóðabankans nú í haust. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka þátt í átakinu af fullri einurð eins og aðrar Norðurlandaþjóðir. Mörg fátækustu ríki hafa lokast inni í vítahring afborgana og vaxtagreiðslna sem þau hafa alls ekki ráðið við. Markmið átaksins er að rjúfa þennan vítahring. Ég geri mér vonir um að átakið hjálpi ekki einvörðungu fátæku fólki til bjargálna heldur örvi það líka viðskipti í heiminum. Okkar framlag til átaksins nemur um það bil 200 milljónum króna sem að mestu fara í gegnum Alþjóðabankann á nokkrum árum.

Gott. Ég er sammála þessu en --- og nú spyr ég hæstv. utanrrh.: Hverjir eru skilmálarnir? Ég man þegar ég vaknaði upp við þessar fréttir einn morguninn að þá gladdist hjarta mitt en í lokin kom niðurlagið og þar var vísað til frammistöðu og skilmála. Þeir skilmálar sem þessar stofnanir hafa sett eru að þessar fátæku þjóðir einkavæði almannaþjónustuna og gefi hana eða færi hana erlendum auðhringum. Því miður hefur hæstv. utanrrh. og ríkisstjórn tekið undir það á liðnum árum. Það gerði hæstv. utanrrh. t.d. árið 1997 eins og greint var frá í fréttatilkynningu sem birt var daginn eftir. Utanrrh. lýsti yfir fullum stuðningi við sérstakt átak Alþjóðabankans til að auka fjárfestingar einkaaðila í orkumálum, samgöngu- og fjarskiptakerfum þróunarríkjanna. Í þeim gögnum sem send voru frá þeim fundi þar sem fjallað var um þessa hluti, segir t.d. í millifyrirsögn: ,,,,Action Program`` to facilitate private involvement in infrastructure ...``, þ.e. aðgerðaráætlun til að einkavæða í stoðkerfi samfélaganna. Þetta var á fundi sem haldinn var í Hong Kong og var mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum. En það var annar fundur sem hæstv. utanrrh. talaði á. Sá var í Washington. Og þar talar hann um, með leyfi forseta, mikilvægi þess:

,,... to create an enabling environment for the private sector. The challenge for all actors involved is to find measures to improve the effectiveness of the public sector, strenghten the financial, institutional and legal framework and the human capital base in order to enhance private sector development and to attract private capital.``

Það á með öðrum orðum að gera opinbera geirann skilvirkari til þess að hægt sé að einkavæða hann og auðvelda einkafjármagni aðkomu að honum. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvað hangir á spýtunni? Hefur Alþjóðabankinn breytt sinni stefnu gagnvart þessum skilyrðum og hefur afstaða hæstv. utanrrh. sem hér hefur lýst stuðningi sínum við þá stefnu Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að knýja þessi fátæku ríki til einkavæðingar, breyst?

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég minnast á umræðuna um Evrópumálin. Ég verð því miður að ljúka ræðu minni nú, en á vonandi möguleika á að koma aftur í ræðustól og mun ég að sjálfsögðu gera það því að þar er sitt hvað sem ég vildi til málanna leggja.