Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:09:40 (998)

1999-11-02 18:09:40# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að við getum haldið ró okkar þó að það sé vissulega ástæða til að æsa sig yfir þessum málum og þetta sé tilfinningamál fyrir margt fólk. Svo er í þriðja heiminum á meðal fátækustu þjóða heimsins sem hafa orðið leiksoppar alþjóða bankakerfisins, Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta er átakamál í heiminum öllum. Ég veit ósköp vel að línurnar eru ekki fundnar í afstöðu ríkja vegna þess að valdamenn þessa heims eru víða og margir á sama bátnum og hæstv. utanrrh. Íslands kýs að róa á.

En fátækt fólk og þjóðir sem verið er að svipta eignum sínum eru margar á öðru máli og þetta er eitt umdeildasta mál í heiminum í dag, þ.e. afstaða Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til lánveitinga til þriðja heims ríkja og hefur verið til umfjöllunar um heim allan. Og svo leyfir hæstv. utanrrh. Íslands sér að skýla sér á bak við það að hann hafi fengið klapp á kollinn frá ráðamönnum í heiminum og að Norðurlandaþjóðir séu á sama báti. Innan Norðurlandanna er líka verið að gagnrýna þessa afstöðu.

Síðan er það rangt hjá hæstv. utanrrh. að ég hvetji til afskiptaleysis gagnvart mannréttindabrotum. Ég geri það ekki. Ég tók upp (Utanrrh.: Hvað þá?) málefni Tsjetsjeníu t.d. og hæstv. utanrrh. brást þá við með svipuðum hætti og hann gerir nú, með tilfinningalegri vanstillingu. Hann er ekki fær um að ræða þetta af rólegheitum. Ég er að hvetja til breyttrar stefnu en við fylgjum núna gagnvart Sameinuðu þjóðunum og gagnvart vandamálum líðandi stundar.