Forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 13:53:20 (1042)

1999-11-03 13:53:20# 125. lþ. 18.2 fundur 105. mál: #A forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Hér kom þó fram eitthvað fram sem líktist svari, efnislegu svari við fsp. hv. þm. Tveir sjálfstæðismenn höfðu áður notað tækifærið til þess að hreyta ónotum í Ríkisútvarpið og áhugamenn um þjóðarútvarp á Íslandi.

Málið stendur ekki um stjórn einstakra dagskrárliða. Auðvitað er það í höndum starfsmanna útvarps. Málið stendur um grundvallarreglur um störf blaðamanna, fréttamanna og dagskrárgerðarmanna, að þeir séu ekki seldir á fæti eins og reyndar tíðkast á ýmsum útvarpsstöðvum öðrum en þjóðarútvarpinu. Málið snýst um traust hlustenda, eigenda þjóðarútvarpsins til útvarps síns. RÚV, Ríkisútvarpið, þjóðarútvarpið á að vera fyrirmynd annarra fjölmiðla. Það er frumskylda þess að halda trausti hlustenda þegar kemur að hinu gráa og stundum svarta svæði gagnvart auglýsendum og kostunaraðilum.