Rannsóknir á útkomu samræmdra prófa

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:03:44 (1051)

1999-11-03 14:03:44# 125. lþ. 18.3 fundur 108. mál: #A rannsóknir á útkomu samræmdra prófa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í umræðum um skólamál á hinu háa Alþingi er gjarnan rætt um samræmd próf. Menn hafa farið yfir það í umræðu til hvers sá leikur er gerður og menn hafa velt vöngum yfir því hvað hafi verið unnið með niðurstöður samræmdra prófa, einkum samræmdra prófa úr 10. bekk, en eins og menn þekkja hafa niðurstöður þeirra prófa verið birtar skóla fyrir skóla þannig að landsmönnum ætti að vera ljóst hvernig skólar standa sig, hvernig nemendum hefur reitt af í þeim greinum sem prófað er samræmt í í hverjum skóla.

Við veltum því fyrir okkur hvort sá leikur er gerður til annars en að rétta framhaldsskólanum tiltölulega einfalt matstæki til að velja sér nemendur.

Það er ljóst, herra forseti, að niðurstöðurnar hafa verið mjög mismunandi, ekki bara eftir sveitarfélögum heldur einnig mismunandi eftir skólum innan sama sveitarfélags. Það væri mjög gagnlegt fyrir umræðuna um skólamál og umræðuna um stöðu barna og möguleika þeirra ef við gætum nokkurn veginn áttað okkur á því hvað það er sem veldur að sumir skólar skila lakari árangri nemenda úr 10. bekk en aðrir.

Er hægt að bregðast við, herra forseti? Hvernig skal bregðast við til að bæta aðstöðu barna og ungmenna í landinu?

Það er ljóst að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur safnað mjög miklum upplýsingum á undanförnum árum vegna þess að þar eru niðurstöður samræmdra prófa langt aftur í tímann og þar er auðvitað heilmikill efniviður til að vinna úr. En grunur minn er sá, herra forseti, að það muni ekki duga til, það verði að skoða þessi mál í víðara samhengi.

Síðast þegar skólamál voru rædd á hinu háa Alþingi, þegar frv. til breytinga á lögum um grunnskólann var til umfjöllunar, var vikið að þessu efni og þá sagði hæstv. menntmrh., með leyfi forseta:

,,10. bekkjar prófin liggja fyrir og þar hafa farið fram margar rannsóknir og mikið starf verið unnið. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur unnið að því. Hið sama hefur einnig verð gert á vegum Kennaraháskólans. Rannsóknir á sviði mennta- og kennslumála eru að aukast`` --- bætti hann svo við. Ég hef þess vegna lagt eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. menntmrh.:

,,Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar til að skýra þann mun sem hefur verið á útkomu einstakra skóla á samræmdum prófum í 10. bekk grunnskóla, hverjir hafa gert slíkar rannsóknir og hverjar hafa niðurstöðurnar verið?``