Verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 16:01:34 (1100)

1999-11-03 16:01:34# 125. lþ. 18.10 fundur 49. mál: #A verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Við höldum áfram að ræða hér áform og efndir. Í 6. lið samþykktrar þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir árið 1999--2001 segir að skilgreina eigi eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt sé að sinna á landsbyggðinni og hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem m.a. geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.

Áform og efndir segi ég, herra forseti, vegna þess að á meðan fjallað var um byggðaáætlunina í þinginu og raunar eftir að hún var samþykkt hefur áfram sigið á ógæfuhliðina í málefnum landsbyggðarinnar. Það er verið að flytja til störf, fólkinu er að fækka og þess vegna er mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn sé haldið við efnið með fyrirspurnum og umfjöllun í þinginu. Það er alveg augljóst að ef það er ekki gert þá mun enn halla á ógæfuhliðina og það með auknum hraða. Ég hef þess vegna lagt eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. fjmrh., sams konar fyrirspurn og ég lagði fyrir hæstv. iðn.- og viðskrh.:

,,1. Hafa verkefni fjármálaráðuneytis eða undirstofnana og fyrirtækja þess sem unnt er að sinna á landsbyggðinni verið skilgreind, sbr. 6. lið í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001?

2. Hvenær er gert ráð fyrir að ,,tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta`` verði lagðar fram?``

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt fyrr í dag. Bæði hefur verið rætt um fjarskiptamöguleika og sömuleiðis möguleika á að flytja störf til. Hér hefur verið rætt um skýrslu Iðntæknistofnunar sem forathugun á því hvaða verkefni gætu hugsanlega hentað til gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni. Þar hafa ráðuneytin þegar ákveðið hráefni að vinna úr og nú er komið til þeirra kasta að sortera eftir sínum aðstæðum og gera tillögur um hvaða verkefni þau hafa vald eða ráð á að vinna annars staðar.

Herra forseti. Ég lít svo á að sá hraði sem verður á þessu verkefni hjá einstaka ráðuneytum sé í raun prófsteinn á vilja þeirra til að takast á við þær breytingar sem orðið hafa í atvinnulífi landsmanna á undanförnum árum og því miður í flestum tilfellum til fábreytni.